22/12/2024

Þjóðháttasöfnun um sumardvöl barna í sveit

Þjóðminjasafn Íslands sendir um þessar mundir út spurningaskrána Sumardvöl barna í sveit. Tilgangurinn er að safna upplýsingum frá því á fyrri hluta 20. aldar til dagsins í dag um sveitaveru barna og unglinga úr þéttbýli. Ekki hefur áður verið safnað sérstaklega upplýsingum um þetta efni. Þeir sem fá skrána í hendur eru beðnir um að taka vel á móti henni, en með því að svara hjálpa menn Þjóðminjasafninu að varðveita mikilvæga þekkingu sem annars er hætt við að færi forgörðum. Heimildarmenn eru beðir um að segja frá sinni eigin reynslu. Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is hvetur fólk eindregið til að taka þátt í þessari söfnun og þá sem voru í sveit á Ströndum til að senda svör sín jafnframt til Sauðfjárseturs á Ströndum.

Fólk sem verið hefur í sumardvöl í sveit og vill taka þátt í verkefninu ætti að snúa sér til Þjóðháttasafns Þjóðminjasafns Íslands. Heimilisfangið er Suðurgata 43, 101 Reykjavík og sími er 530 2200. Safnið vill bæði komast í samband við fólk sem var í sumardvöl gegn gjaldi og þá sem unnu þar fyrir sér. Ennfremur hefur safnið áhuga að senda spurningaskrá til þeirra sem voru í eins konar ,,leikskólum” til sveita eða á sveitaheimilum.

Þjóðminjasafnið hefur frá því 1960 safnað heimildum um þjóðhætti með spurningaskrám. Meðal annars hefur verið aflað upplýsinga um lifnaðarhætti í þéttbýli, trúarlíf, fiskvinnslu, sveitabúskap og hernámsárin, svo nokkur dæmi séu tekin.

Svör heimildarmanna eru varðveitt í skjalasafni Þjóðminjasafnins, en hafa einnig verið slegin inn í rafrænan gagnagrunn. Takmarkaður aðgangur er þó að grunninum. Nánari upplýsingar eru veittar hjá Þjóðháttasafni Þjóðminjasafns Íslands.