22/12/2024

Þetta er ekki rommkútur, þetta er skjaldbaka!

Skjaldbakan, sem er gamansamur einleikur, verður frumsýnd á Hólmavík þann 1. júlí við upphaf Hamingjudaga í Bragganum á Hólmavík. Verkið er samið og leikið af Smára Gunnarssyni í samstarfi við leikstjórann Árna Grétar Jóhannsson. Opinbert æfingar tímabil verksins er hafið og hefur staðið yfir í rúma viku og var þá æft í Bragganum á Hólmavík, þar sem var kaldara inni en úti, segir Smári.

Verkið er byggt á þeim stóratburði þegar að risaskjaldbaka kom að landi á Hólmavík árið 1963. Ungur maður kynnist veiðimanninum og þótt þeir fari í sitt hvora áttina eru órjúfanleg tengsl milli þeirra. Veiðimaðurinn tekur loforð af unga manninum að passa upp á bát fyrir sig þegar hann flytur frá þorpinu. Þegar báturinn dúkkar upp mörgum árum seinna og minningar um veiðimanninn og skjaldbökuna streyma fram koma einnig fram leyndir draumar hins unga manns um veiðimennsku, sjómennsku og almenna karlmennsku. Allt kristallast þetta auðvitað í einu merkasta afreki veiðimannsins, skjaldbökuævintýrinu.

Smári lýsir eftir silfurlitaðri stál Nilfisk ryksugu til að nota í stykkinu, í hvaða ástandi sem er. Ef einhver góðhjartaður Hólmvíkingur á slíkan grip sem ekki er verið að nota, má sá hinn sami hafa sambandi við Smára en email-ið hans er smari.gunn@gmail.com.

Miðaverð á atburðinn er aðeins kr. 1.500.-  Miðapantanir hjá Stínu í síma 867-3164. Hægt er að fylgjast með framvindu verksins hér: skjaldbakanleiksyning.blogspot.com.