22/12/2024

„Þeir gera það gott Strandamenn“

Jón Bjarnason alþingismaðurAðsend grein: Jón Bjarnason
Það var mikið um dýrðir á Hólmavík í gær, laugardag, þegar nýtt íþróttahús ásamt sundlaug var blessað við hátíðlega athöfn. Fyrir hvert nútímasamfélag skiptir góð íþróttaaðstaða miklu máli. Börnin og unglingarnir finna í raun að þau búi við sambærilegar aðstæður, jafnvel betri en jafnaldrar þeirra annars staðar á landinu. Fólkið spjallaði um badminton tímana, körfuboltann og sundsprettina. En ekki síst var því skrafdrjúgt um heita pottinn og umræðurnar sem þar færu fram. Okkur gestunum duldist ekki að það var ekki aðeins líkamleg heilsurækt sem sótt var í hina glæsilegu íþróttamannvirki heldur einnig sjálf mannræktin og hún ekki síst.

Á hátíðinni léku börn og fullorðnir listir sínar ekki aðeins í íþróttum heldur var einnig flutt frábær tónlist, söngur og leikatriði. Voru þau atriði góð sýnishorn þeirra miklu grósku sem er í söng, tónlist og leiklistarlífi Hólmvíkinga. Keppnin í trjónufótbolta sýndi að hugvit Strandamanna í nýjum leikjum á sér engin takmörk.

Þar sem ég stóð þarna við hlið Jóns Loftssonar frænda míns var mér hugsað til frásagna föður míns Bjarna Jónssonar frá Asparvík, síðar Bjarnarhöfn, af íþróttum Strandamanna fyrr á tímum. Hann hafði ásamt öðrum Balamönnum og Bjarnfirðingum staðið að byggingu sundlaugar á Klúku og sótt þangað íþróttamót árum saman. Faðir minn var heitinn í höfuðið á Bjarna Þorbergssyni á Klúku afa Jóns Loftssonar.

Í sögum föður míns var leikni Bjarna Þorgbergssonar í hvers kyns íþróttum sveipuð miklum ljóma. Enginn sló honum við í stökkkrafti og hann átti að hafa stokkið jafnfætis upp í tóma tunnu. Þá var keppt í tunnuhlaupi og stóð þar enginn Bjarna Þorbergssyni á sporði. Við krakkarnir lékum okkur að tunnuhlaupi í Asparvík og sérstök keppni var í að slá tunnugjarðir ákveðna vegalengd.

Strandamenn hafa átt mikla íþróttagarpa gegnum árin. Má nefna Hrein Halldórsson kúluvarpara og Kristínu Rós Hákonardóttur sundkonu. Hún er Strandakona ættuð frá Kleifum og Byrgisvík og af Pálsætt. Hefði verið vel við hæfi að hún væri valin íþróttamaður ársins á landsvísu.

Ljóst er af tilþrifum íþróttamanna á Hólmavík í gær við hátíðahöldin að þar hefur ekkert gleymst eða úrkynjast. Mér kæmi ekki á óvart að Strandamenn endurvektu íþróttaleiki Bjarna Þorbergssonar og annarra Strandamanna til dæmis að hoppa jafnfætis upp í tunnu og keppa í tunnuhlaupi.
 
Bestu þakkir fyrir góðan dag og til hamingju Hólmvíkingar og allir Strandamenn.
 
Jón Bjarnason, aþingismaður.