05/10/2024

Þar sem rassinn hvílir: Þjóðfræði heimilisins

Þjóðfræðinemar við Háskóla Íslands í námskeiðinu Hagnýt þjóðfræði eru á Ströndum í námslotu í vikunni og ætla að halda málþing sem verður opið öllum sem áhuga hafa. Flutt verða sjö stutt og skemmtileg erindi og óhætt að segja að dagskráin sé bæði fjölbreytt og spennandi. Heimilið og heimilislíf frá þjóðfræðilegu sjónarhorni er þemað, en daglegt líf í samtíma og fortíð er sígilt umfjöllunar- og rannsóknarefni þjóðfræðinga.

Málþingið verður haldið á Restaurant Galdri á Galdrasýningunni á Hólmavík og stendur frá kl. 18-20 miðvikudaginn 28. febrúar. Hægt verður að kaupa veitingar á meðan. Rannsóknasetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofa, Strandagaldur, Þjóðfræði við Háskóla Íslands og Fjölmóður – fróðskaparfélag á Ströndum standa saman að viðburðinum. 

Eftirfarandi fyrirlestrar verða fluttir:

Agnes Jónsdóttir: „Hér er ró og hér er friður …“

Baðherbergið hefur verið mikilvægt rými innan veggja hins íslenska heimilis frá því að tími torfbæjanna rann sitt skeið. Þar sinna menn og konur frumþörfum sínum, en það er ekki það eina sem þau gera þar – hvað er það sem á sér stað innan þessara veggja og hvers vegna það svona mikið einkamál?

Dagný Davíðsdóttir: Ég var að hugs’um að far’úr buxum.

Vinsældir kósíkvölda hafa gjarnan dýpri tilgangi en einungis að seðja hungur í sælgæti og góða ræmu. Margir halda þau reglulega með ákveðnum siðum og venjum sem alltaf er farið eftir. Viðburðurinn á sér einnig tímaramma og staðsetningu ásamt nokkrum lykilhlutum sem gera þau að því sem þau eru. Fyrir mörgum er þetta mikilvægasti tími vikunnar.

Gunnar Óli Dagmararson: Þetta er herbergið mitt. Um einkarými heimilisins, tómstundir og iðju.

Í fyrirlestri mínum ætla ég að velta fyrir mér gildi þess að eiga sér einkarými og miða það við kenningar fræðimanna í þjóðfræði um heimilið, rými og hópa. Ég mun taka dæmi úr eigin lífi og koma af stað umræðu með gestum málþingsins um einkarými heimilisins.

Guðrún Gígja Jónsdóttir: Hver á að elda í kvöld?

Matarmenning er stór hluti að lífi okkar, en án matar væri lítið um líf. Eldhúsið er staðurinn þar sem galdrarnir fara fram og er það mismunandi eftir því hver eldar og fyrir hvern og af hvaða tilefni! Matur og viðburðir eru mjög tengdir líkt og matarboð þar sem oftast er boðið vinum og vandamönnum í mat inn á heimilinu.

Sigrún Sigvaldadóttir: Bækur á heimilum landsmanna

Íslenska þjóðin hefur ávallt verið talin mikil bókaþjóð. Bækur hafa verið stolt eigenda sinna og prýtt heimili þeirra í gegnum aldirnar. Það verður því áhugavert að skoða aðeins hverskonar bækur hafa verið til á heimilum og hvernig þær hafa oft á tíðum gagnast á margskonar hátt.

Dagrún Ósk Jónsdóttir: „Í herberginu hennar var opin gátt til helvítis“

Það er oft talað um að það sé reimt í húsum, við fáum einhverja ákveðna tilfinningu þegar við löbbum inn í þau, þeim fylgja allskonar minningar og sögur, sannar eða ekki, og allskonar draugar fortíðarinnar. Suma gesti viljum við alls ekki hafa heima hjá okkur og getur verið erfitt að losna við. Hvernig bregst maður við ósýnilegri innrás á heimilið sem á að vera okkar griðarstaður?

Alice Bower: „Í hömrum þessum var hellir hennar, þar fór hún inn með hann“: Um heimilis- og matarhætti trölla, huldufólks og dverga

Oft er sagt að fólk geri hús að heimili. En sköpun heimilis getur líka átt sér stað í þúfum, í hellum og í dvergasteinum. Þar búa þjóðsagnaverur sem elda, halda matarboð, sofa -ekki ósjaldan hjá mennskum mönnum- og skemmta sér um kvöldið með vín og vist og hljóðfæraslátt. Í erindinu verður lagt út af völdum dæmum úr íslenskum þjóðsagnasöfnum til að draga fram einkenni heimilishátta trölla, álfa og dverga. Einnig verður grafist fyrir um samband þessara lýsinga og viðhorfa sagnamanna til náttúrunnar.

Verið öll hjartanlega velkomin! Aðgangur að málþinginu er ókeypis.