30/10/2024

Sveitarstjórnarlög

Aðsend grein: Jóhann Ársælsson, þingmaður
Fjallað var um frumvarp sem ég hef flutt á Alþingi ásamt fleiri þingmönnum á vefslóðinni strandir.saudfjarsetur.is. Þar segir að erfitt sé að sjá hvernig Strandir komi út úr slíkri sameiningu vegna dreifbýlis og vegalengda, því það sé rétt á mörkunum að það nægi að sameina t.d. allt héraðið og Reykhólahrepp svo dæmi sé tekið. Það er vel skiljanlegt að menn séu í vafa um að það sé skynsamlegt að ráðast í sameiningu ef svona háttar til. Ég sé því ástæðu til að koma eftirfarandi upplýsingum og sjónarmiðum á framfæri.

Með frumvarpinu er lagt til að lágmarksíbúafjöldi í sveitarfélagi skuli ekki vera undir 1000. Núgildandi ákvæði eru í  6. gr. sveitarstjórnarlaga svo orðuð:

"Lágmarksíbúatala sveitarfélags er 50 íbúar.
Nú hefur íbúafjöldi sveitarfélags verið lægri en 50 í þrjú ár samfleytt og skal ráðuneytið þá eiga frumkvæði að því að sameina það nágrannasveitarfélagi. Einnig má þá skipta hinu fámenna sveitarfélagi milli nágrannasveitarfélaga. Undantekningu frá þessu ákvæði skal gera ef sérstakar aðstæður hindra það að mati ráðuneytisins að íbúar hins fámenna sveitarfélags geti myndað félagslega heild með íbúum nágrannasveitarfélags."

Lögþvinguð sameining?

Ekki eru aðrar breytingar en á íbúatölunni lagðar með þessu frumvarpi. Þar af leiðandi munu sömu reglur og sjónarmið verða lögð til grundvallar og áður við ákvarðanir Félagsmálaráðherra um lögþvingaða sameiningu.
Síðasta málsgrein lagagreinarinnar kemur eðlilega til skoðuar þegar ráðherra ákveður hvort beita skuli lögþvingaðri sameiningu. Ýmiss dæmi eru um að sveitarfélög hafi verið innan 50 íbúalágmarksins, jafnvel áratugum saman. Ég læt nægja að nefna Mjóafjörð sem vegna samgöngulegrar einangrunar féll auðvitað undir þetta ákvæði. Þessu ákvæði datt okkur aldrei í hug að hrófla við og teljum að því skuli beita þar sem við á.

Markmið breytingarinnar

Frumvarpinu er flutt vegna þess að það er mikill pólitískur vilji meðal stjórnmálamanna bæði í sveitarstjórnum og á Alþingi til þess að færa til sveitarfélaganna fleiri verkefni frá hinu opinbera. Sá vilji byggist á þeirri forsendu að sveitarfélög geti veitt svipaða þjónustu og tekið að sér sambærileg verkefni. Þróun í þá átt að verkefni verði flutt til sveitarfélaganna frá hinu opinbera er nú verulega hamlað og verður áfram nema þau smáu sameinist og myndi þannig nægilega öflug samfélög til að standa jafnfætis öðrum.

Enginn vafi er á því að efling sveitarfélaganna, skilgreining á þeim búsetuskilyrðum sem þau verða að geta boðið og flutningur verkefna til þeirra er forsenda þess að byggð geti haldist og þróast víða um land. Það er því eitt brýnasta verkefni byggðamálanna að styrkja sveitarfélög á landsbyggðinni. Þau sveitarfélög sem verða áfram mjög fámenn vegna samgöngulegrar einangrunar þarf að styrkja sérstaklega til að þau geti þrátt fyrir það veitt íbúum sínum sambærileg lífsgæði. og hin stærri eru í færum til. 

Jóhann Ársælsson alþingismaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi.