22/12/2024

Sveinn Kristinsson á brýnt erindi

Anna Lára SteindalAðsend grein: Anna Lára Steindal
Um næstu helgi fer fram prófkjör Samfylkingarinnar í Norðvestur kjördæmi. Þá gefst félagshyggjufólki í landshlutanum kostur á því að kjósa sér fulltrúa á listann sem teflt verður fram til alþingiskosninganna í vor. Sveinn Kristinsson býður sig fram til að leiða lista Samfylkingarinnar í kjördæminu. Ég hef átt þess kost að starfa með Sveini, bæði að bæjarmálum á Akranesi og einnig mannúðarstörfum undir merkjum stærstu mannúðarhreyfingar í heimi, Rauða krossinum. Ég þekki því af eigin raun hversu raungóður, hugmyndaríkur og staðfastur baráttumaður Sveinn er, enda hefur hann til að bera alla þá mannkosti sem prýða þarf góðan leiðtoga.

Hann hefur brennandi réttlætishugsjón, þor og áræði til að takast á við krefjandi verkefni, óbilandi dug og bjartsýni á að mögulegt sé að hrinda í framkvæmd hugsjóninni um réttlátt samfélag þar sem mannúð og virðing fyrir hverri manneskju er í öndvegi. Þá hefur Sveinn einnig einstakt lag á því öðlast yfirsýn, greina ólíkar hliðar á hverju máli og hugsa mál lengra en flestir sem ég þekki hafa hæfileika til. Það spillir svo ekki fyrir hvað hann er alltaf glaður og því er ævinlega gaman að vinna með honum.

Sveinn býr yfir margháttaðri starfsreynslu, til sjávar og sveita, sem gerir það að verkum að hann á auðvelt með að hafa samkennd með fólki og skilja aðstæður þess. Reynsla hans úr sveitarstjórnmálum mun einnig nýtast honum til góðra verka, hljóti hann til þess brautargengi, en hann hefur setið í bæjarstjórn í tólf ár og verið forystumaður vinstri manna á Akranesi í átta ár.

Brýnasta verkefni okkar jafnaðarmanna nú er að kalla til kraftmikið hugsjónafólk sem getur stillt saman strengi sína og snúið við þeirri hörmulegu þróun sem orðið hefur í íslensku samfélagi síðastliðin sextán ár. Sá ójöfnuður og það misrétti sem er veruleiki okkar í dag er eitthvað sem við eigum ekki og megum ekki sætta okkur lengur við.

Það má því ljóst vera að Sveinn Kristinsson á brýnt erindi á lista Samfylkingarinnar til komandi alþingiskosninga og ég hvet alla til þess að stuðla að því að kraftar hans nýtist okkur sem best.
 
Anna Lára Steindal, varabæjarfulltrúi á Akranesi