22/12/2024

Styrktarsjóðir fatlaðra og sjúkra

Í vörslu Héraðsnefndar Strandasýslu eru tveir sjóðir sem veittir eru úr styrkir. Annar heitir Styrktarsjóður lamaðra og fatlaðra í Strandasýslu og vörslufé þess sjóðs er nú kr. 2.280.000.- Hinn er Utanfararsjóður sjúkra í Strandasýslu og hefur hann yfir að ráða kr. 300.000.- Báðir þessir sjóðir starfa samkvæmt skipulagsskrám sem staðfestar eru af Dómsmálaráherra og Forseta Íslands. Ríkisendurskoðun yfirfer reikninga sjóðanna.

Helstu ákvæði í skipulagskrá Styrktarsjóðs lamaðra og fatlaðra eru:

  • Hann er stofnaður með erfðafé Ragnheiðar Guðjónsdóttur, Vífilsgötu 7, Rvík, samkvæmt erfðaskrá hennar, dags. 4. nóvember 1970, til minningar um eiginmann hennar Þorkel J. Sigurðsson, úrsmið frá Hólmavík.
  • Hlutverk sjóðsins er að styrkja lamaða og fatlaða í Strandasýslu.
  • Stjórn sjóðsins skipa þrír menn, og skulu þeir vera, samkvæmt fyrrgetinni erfðaskrá, sóknarpresturinn á Hólmavík, heilsugæslulæknirinn á Hólmavík og Sýslumaðurinn í Strandasýslu.
  • Styrkjum úr sjóðnum skal úthluta samkvæmt umsóknum, og skal styrkfjárhæð fara eftir mati sjóðstjórnar hverju sinni. Eigi má þó úthluta úr sjóðnum meira fé árlega, en sem nemur 3/4 – þrem fjórðu – hlutum árvaxta.

Utanfararsjóður sjúkra í Strandasýslu er stofnaður og viðhaldið af frjálsum framlögum einstaklinga og félagasamtaka. Í skipulagsskrá segir meðal annars:

  • Hlutverk sjóðsins er að styrkja sjúka, sem þurfa nauðsynlega að leita sér læknis erlendis.
  • Sjórn sjóðsins skipa fimm menn. 2 skulu kosnir af Kvenfélagasambandi Strandasýslu, 2 af sýslunefnd Strandasýslu. Héraðslæknirinn á Hólmavík skal sjálfskipaður formaður sjóðsstjórnar, en sjúkrahúsformaður til vara.
  • Styrkjum úr sjóðnum skal úthluta samkvæmt umsóknum. Skal styrkupphæð fara eftir mati sjóðsstjórnar hverju sinni. Aldrei má þó úthluta meiru en svo að eftir standi 15.000.-
  • Verði sjóðurinn af einhverjum ástæðum lagður niður, sem slíkur, skulu eignir hans renna til sjúkrahúss eða elliheimilis innan Strandasýslu.

Þeir sem vilja sækja um framlög úr sjóðunum geta snúið sér einhvers í stjórnum sjóðana eða til Héraðsnefndar Strandasýslu.