23/12/2024

Strandamenn í þjóðkirkjunni

Nokkur munur er á því eftir kirkjusóknum á Ströndum hvort menn eru skráðir í þjóðkirkjuna eða ekki. Það kemur fram í tölum Hagstofunnar um skráningu í trúfélög þann 1. desember 2004. Þannig eru allir íbúar í Óspakseyrarsókn, Nauteyrarsókn og Melgraseyrarsókn skráðir í þjóðkirkjuna, en um það bil 83% íbúa Kaldrananessóknar. Síðari talan er töluvert nær landsmeðaltali sem er 85,5%.

Í öðrum sóknum á Ströndum eru tölurnar þær að 90,3% íbúa Drangsnessóknar, 91,8% íbúa Prestbakkasóknar, 95,7% íbúa Kollafjarðarnessóknar og 98,2% íbúa Árnessóknar og Hólmavíkursóknar eru skráðir í þjóðkirkjuna. Svo er bara spurningin hvort Strandamenn séu jafn kristilega þenkjandi á borði og í orði.

Samkvæmt lögum um sóknargjöld skilar ríkissjóður ákveðnum hluta tekjuskatts til þjóðkirkjusafnaða, skráðra trúfélaga og Háskólasjóðs. Þessi fjárhæð nefnist sóknargjald og er tiltekin upphæð ár hvert fyrir þá sem eldri eru en 16 ára. Gjaldið er greitt til safnaðar þeirra sem eru skráðir í þjóðkirkjuna, til skráðs trúfélags einstaklinga sem eru ekki í þjóðkirkjunni og til Háskóla Íslands vegna einstaklinga sem standa utan trúfélaga eða eru í trúfélagi sem ekki hefur hlotið skráningu. Eyðublöð til að skrá sig í trúfélag eða úr því má finna hér.