26/12/2024

Strandagangan gekk eins og í sögu

Úrslitin úr 17. Strandagöngunni eru komin á vef Skíðafélags Strandamanna, en gangan var haldin í Selárdal á laugardag í ágætu veðri: sólskin með köflum, logn og frost -10°c. Undir lok göngunnar snjóaði dálítið. Alls tóku 82 þátt í göngunni og komu víða af landinu, Húsavík, Akureyri, Ólafsfirði, Siglufirði, Súðavík, Ísafirði og höfuðborgarsvæðinu. Segja má að allt hafi gengið eins og í sögu við framkvæmd göngunnar og fær Kaupfélag Steingrímsfjarðar þakkir frá Skíðafélaginu fyrir stuðninginn, en Kaupfélagið hefur verið styrktaraðili göngunnar frá upphafi.

Sigurbjörn Þorgeirsson frá Ólafsfirði kom fyrstur í mark í 20 km göngunni og fékk því hinn stórglæsilega Sigfúsarbikar til varðveislu næsta árið. Sigurbjörn vann öruggan sigur í göngunni, en hann tók forustuna strax í upphafi og hélt henni alla leið. Næstur í mark var annar Ólafsfirðingur Kristján Hauksson rúmlega mínútu á eftir Sigurbirni.

Eftir gönguna skelltu margir göngugarpar sér í sund á Hólmavík og síðan á kaffihlaðborð og verðlaunaafhendingu í Félagsheimilinu á Hólmavík. Myndir má meðal annars finna á vefn Ingimundar Pálssonar – http://mundipals.123.is.