22/12/2024

Strandabyggð hyggst setja sér starfsmannastefnu

Á síðasta fundi sveitarstjórnar Strandabyggðar samþykkti sveitarstjórn einróma að unnið verði að gerð opinberrar starfsmannastefnu hjá sveitarfélaginu. Tillagan er gerð eftir ábendingar frá starfsmönnum Grunnskólans á Hólmavík sem bent höfðu á mikilvægi þess að sveitarfélagið hefði skýrar línur um samskipti við starfsmenn sína. Langflest betri fyrirtæki hafa nú til dags greinargóða og opinbera starfsmannastefnu, rétt eins og jafnréttisáætlun og umhverfisstefnu.

Ljóst má vera að á tímum varnarbaráttu fámennari sveitarfélaga víða um land er slík aðgerð vel til fundin hjá Strandabyggð og öðrum sveitarfélögum sem ekki hafa þegar samþykkt góða starfsmannastefnu. Um leið hlýtur að vera mikilvægt að við gerð stefnunnar verði gott samráð haft við starfsmennina sjálfa. Samkeppni milli svæða og sveitarfélaga um gott starfsfólk er töluverð og á eftir að aukast með breyttum atvinnuháttum þar sem tölvutækni og skapandi atvinnugreinar skipta sífellt meira máli.

Ekki kemur fram i fundargerðinni hver mun hafa umsjón með gerð stefnunnar eða hvenær hún á að vera tilbúin, en líklegt hlýtur að vera að verkinu verði hraðað eftir megni. Strandabyggð er stærsti vinnuveitandinn í sveitarfélaginu.