22/12/2024

Stefnir í nokkuð almenna þátttöku kvenna

Einhverjir vinnustaðir á Hólmavík þurfa að loka klukkan 14:08 vegna Kvennadagsins en nokkuð almenn þátttaka virðist ætla að vera meðal kvenna að sýna samstöðu. strandir.saudfjarsetur.is hefur fregnað af þremur vinnustöðum sem loka örugglega en það eru Sparisjóður Strandamanna, KB banki og skrifstofa Hólmavíkurhrepps. Hjá Sparisjóðnum fengust þær upplýsingar að konurnar þar gangi út allar sem ein og að sparisjóðsstjórinn verði skilinn þar einn eftir. Hann mun þó ekki ganga í störf kvenna heldur eingöngu svara síma og sinna sínum hefðbundnum störfum. Verslun Kaupfélagsins og skrifstofa munu starfa án mikillar röskunar eftir því sem næst verður komist og einnig Söluskálinn á Hólmavík.

Líklegt er að einhver truflun verði hjá rækjuvinnslu Hólmadrangs en þar sem skipulögð dagskrá var ekki tilbúin fyrir helgi þá er óvíst hvernig starfskonurnar á Leikskólanum Lækjarbrekku bregðast við, en Hólmavíkurhreppur skorar á foreldra og þá sérstaklega feður að sækja börn sín fyrir kl. 14:00 svo að starfskonur leikskólans geti mætt.

Konur á Hólmavík ætla að hittast við pósthúsið kl 14:30 og ganga þaðan inn á Kópnes og fara svo í heitu pottana í Íþróttamiðstöð Hólmavíkur, áður en þær fara og gæða sér á dýrindis vöfflum á Café Riis.