22/12/2024

Snæuglan frjáls

Snæuglan Snæfinnur fékk langþráð frelsi í dag um kl. 14:30 þegar honum var sleppt í guðsgræna náttúruna við Steingrímsfjörð. Það var bjargvætturinn Þórólfur Guðjónsson bóndi á Ósi sem fékk þann heiður að sleppa uglunni, en hann fann hana fasta í girðingu í september árið 2005. Síðan þá hefur Snæfinnur dvalist í Húsdýragarðinum í Reykjavík í góðu yfirlæti og braggast vel. Hann virtist feginn en um leið hálfundrandi á frelsinu eftir að hafa verið sleppt í Stórahvammi við Ós og var ekki að eyða of miklu púðri í flugkúnstir.

Starfsfólk Húsdýragarðsins kom keyrandi með ugluna sunnan að og kvöddu félagann þar sem hann sat í móanum og svipaðist um á fornum slóðum. Ekki er talið að Snæfinnur nái nokkurn tíma fyrri styrk, enda er vinstri vængur hans talsvert skaddaður. Öll sár eru þó vel gróin. Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is sendir Snæfinni heillaóskir og baráttukveðjur og vonast til að sjá hann á flugi fljótlega. Hann er jafnframt hvattur til að vara sig á girðingum í framtíðinni. 
 
Hér gefur að líta myndasafn af Snæfinni og frelsinu frá því í dag:
http://www.strandir.saudfjarsetur.is/index.php?option=com_zoom&Itemid=142&catid=22. Póstkort með mynd af Snæfinni fást á Upplýsingamiðstöðinni á Hólmavík.