22/12/2024

Skólaskemmtun á Borðeyri

Fyrir skömmu héldu börnin bæði í barna og leikskólanum á Borðeyri skemmtun í skólanum. Þessa skemmtun héldu börnin fyrir foreldra sína og aðra aðstandendur. Þemað í skemmtuninni var lífið og starfið í skólanum. Börnin voru m.a. með sýningar á sviðinu, þar sem settar voru upp kennslustundir í hinum ýmsu námsgreinum. Leikþættir voru úr Íslendingasögunum sem börnin settu meira og minna upp sjálf.
Að sjálfsögðu nutu börnin einnig aðstoðar Kristínar Árnadóttur skólastjóra, Katrínar Kristjánsdóttur kennara og Sigurlaugar Árnadóttur leikskólakennara bæði við undirbúninginn og sýninguna sjálfa.

Öll börnin tóku þátt og að koma fram var ekki málið. Mikið var sungið og spilað var á hin ýmsu hljóðfæri, sem  Pálína Skúladóttir tónlistarkennari stjórnaði. Meðal annars spiluðu tvær ungar stúlkur á harmonikku, sem er frekar óvenjulegt.

Að venju var boðið upp á kaffi, mjólk og með því á eftir, en við slík tækifæri er venjan að foreldrarnir komi sjálfir með aðföngin. Þar skapast þá hinn besti metnaður sem gerir þetta yfirleitt að stórveislum. 

Fjölda mynda frá skemmtuninni má nálgast undir þessum link.

Ljósm. Sveinn Karlsson og Jóna Guðrún Ármannsdóttir.