22/12/2024

Skemmdarverk og of hraður akstur

Í fréttatilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum um verkefni liðinnar viku kemur fram að í vikunni voru 23 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur. Flestir voru stöðvaðir í Strandasýslu, á þjóðveginum um Ísafjarðardjúp og suður um Strandir. Sá sem hraðast ók var mældur á 118 km hraða í Staðardal. Á fimmtudaginn var ekið á barn á reiðhjóli í Hallabrekku á Ísafirði. Barnið var flutt á sjúkrahúsið á Ísafirði en slapp með minniháttar meiðsl. Einn ökumaður var stöðvaður fyrir meinta ölvun við akstur í Barðastrandasýslu í vikunni og annar var handtekinn, grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna, á Ísafirði í gær, sunnudag.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum var erlendum ferðamanni bjargað úr sjálfheldu við Dynjandisfoss í Arnarfirði á föstudaginn.  Í gær, sunnudag, lenti maður í svipuðum aðstæðum fyrir ofan Gjögra í Patreksfirði.  Björgunarmenn fóru upp á fjallið, sigu niður og aðstoðuðu manni við að komast upp á fjallsbrúnina. Aðstæður voru nokkuð erfiðar, bratt og sleipt. 

Nokkuð hefur verið um eignaspjöll á Ísafirði undanfarið.  Á mánudaginn kom í ljós að búið var að brjóta margar rúður í hópferðarbifreið frá Stjörnubílum sem stóð á Suðurtanga.  Þá kom í ljós á sunnudaginn að rúður höfðu verið brotnar í bifreiðum verktakafyrirtækisins KNH sem er með aðstöðu við Grænagarð á Ísafirði.  Lögreglan hvetur þá sem hafa upplýsingar um þessi skemmdarverk að hafa samband í síma 450-3730.