22/12/2024

Sjálfstæðismenn vilja láta verkin tala í umhverfismálum með jákvæðum hætti

Aðsend grein: Sturla Böðvarsson samgönguráðherra
Umhverfismál eru mikið í umræðunni um þessar mundir svo sem eðlilegt er. Stjórnmálamenn á vinstri vængnum vilja eigna sér umhverfismálin.  Þar eru á ferðinni þeir sem áður hölluðu sér þétt upp að kommunum í Sovétríkjunum sem voru mestu umhverfissóðar Evrópu eins og komið hefur í ljós eftir að múrinn féll. Ástæða er til að minna á að lögin um mat á umhverfisáhrifum voru sett 1993 þegar fyrsta ríkisstjórn Davíðs Oddsonar var við völd og lögin um umhverfismat áætlana voru sett árið 2006. Vinstri grænir komu þar hvergi nærri.

Þegar formaður Vinstri grænna var í ríkisstjórn 1988 til 19991 fór engum sögum af áhuga hans á úrbótum í umhverfismálum. Hvað þá að framkvæmdir eða frumkvæði hans sem ráðherra benti til þess. Sá áhugi virðist hafa vaknað síðar þegar hann hrökklaðist úr vistinni með gamla genginu sem myndaði Alþýðubandalagið. Það var eftir að Sjálfstæðisflokkurinn hóf endurreisnarstarf í íslensku samfélagi eftir stjórnarskiptin 1991. Það má með sanni segja að það sé eitt að tala og tala, eins og Steingrímur J. Sigfússon og Jón Bjarnason hafa tamið sér, en annað að láta verkin tala eins og við sjálfstæðismenn gerum. Við sem viljum láta verkin tala í umhverfismálum getum þess vegna kallað okkur hægri græna.

Í stjórnmálastarfi mínu hef ég alla tíð lagt ríka áherslu á umhverfismálin án þess að vera með sérstaka auglýsingastarfsemi. Sjálfstæðisstefnan er vissulega byggð á farsælli íhaldsemi og virðingu fyrir eignarréttinum. Það gildir jafnt um eignir einstaklinga sem sameign okkar Íslendinga. Innan Sjálfstæðisflokksins hafa starfað menn sem hafa lagt mikla áherslu á umhverfismálin um leið og þeir hafa viljað nýta auðlindir á sjálfbærum forsendum. Í þessari grein vil ég tíunda þær áherslur í umhverfismálum sem ég hef lagt til í störfum mínum sem bæjarstjóri, formaður Þjóðminjaráðs, sem nefndarmaður í Húsafriðunarnefnd ríkisins og sem þingmaður og ráðherra þar sem hef fengið tækifæri til þess að láta verkin tala.

Umhverfismál í skipulagi bæja og menningarminjar

Meðal áhugamála minna er mótun byggðanna, varðveisla menningarminja okkar og húsafriðun. Sem bæjarstjóri í Stykkishólmi fékk ég gott tækifæri til þess að láta verkin tala við skipulag bæjarins. Það gerði ég í þágu umhverfisverndar með stórbættri og aukinni aðstöðu til útivistar og umhverfismála svo sem sjá má á opnum útivistarsvæðum innan bæjarmarkanna. Golfvöllurinn er gott dæmi um það. Húsakönnun var unnin til þess að leggja megin línur í skipulagi og vernd gamalla bygginga. Afrakstur þeirrar vinnu og þeirrar stefnumótunar má sjá á þeim fjölmörgu gömlu húsum sem setja mikinn svip á bæinn og umhverfi sem laðar að ferðamenn og fólk sem vill eiga frístundaaðstöðu í fögru umhverfi.

Gróðurvernd

Sem formaður Héraðsnefndar Snæfellinga lagði ég ríka áherslu á og vann með góðu fólki að gróðurvernd. Tryggði ég framlög til gróðurverndar og landgræðslu og með því að leita eftir samstarfi við Landgræðsluna með ágætum árangri. Uppgræðsla og spornun gegn gróðureyðingu er meðal mikilvægustu forvarnastarfa til að vinna gegn þeirri röskun sem jafnan hlýst af vaxandi byggð, aukinni landnýtingu og umferð um landið ef við höldum ekki vöku okkar.

Þjóðgarður

Sem formaður undirbúningsnefndar að stofnun þjóðgarðsins á Snæfellsnesi fékk ég tækifæri með áhugasömu fólki til þess að leggja grunninn að því mikilvæga verkefni að koma upp þjóðgarði á þessu viðkvæma svæði sem skartar einstakri náttúru. Þar naut ég trúnaðar þáverandi umhverfisráðherra Össurar Skarphéðinssonar sem skipaði mig formann í undirbúningsnefndinni. Sýndi Össur þar mikla framsýni í þágu umhverfisverndar. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull er einstök perla í náttúru Íslands sem þarf að vernda um leið og leyfð er umferð um landið og  dregur til sín þá sem vilja njóta náttúrufegurðar

Umhverfisverkefni  á fjölförnum ferðamannastöðum

Sem samgönguráðherra hef ég lagt ríka áherslu á umhverfismálin. Það sést best í yfir 500 milljóna króna framlagi sem varið hefur verið til umhverfisaðgerða á fjölförnum ferðamannasvæðum um allt land í minni tíð sem ráðherra.

Sem samgönguráherra fékk ég samþykkta ferðamálaáætlun þar sem náttúran og umhverfismál eru í hávegum höfð. Ferðamálaáætlun var samþykkt án mótatkvæða á Alþingi og voru viðtökur mjög jákvæðar og sterkar í þinginu vegna þeirrar áherslu sem lögð er á umhverfismálin.

Umhverfisvottun

Samgönguráðuneytið veitti Hólaskóla stuðning til þess að vinna sérstaklega að vottun á sviði umhverfismála. Starfið á vegum Háskólans á Hólum er mjög mikilvægt og því rík ástæða til þess að veita honum stuðning.
Í tengslum við það fékk ég sem samgönguráðherra tækifæri til þess að veita stuðning þeim sem unnu að því að fá Snæfellsnesið vottað sem  umhverfisvænt svæði á forsendum Green Globe kerfisins. Hefur það mikla þýðingu fyrir svæðið vegna ferðaþjónustu, sjálfbærrar nýtingar  fiskistofnanna og vinnslu sjávarfangsins í vottuðu umhverfi. Þar var á ferðinni verkefni frumkvöðla sem ég tel mikilvægt að stuðla einnig að í öðrum landshlutum þar sem það á við.

Mannvirkjagerð og umhverfismál

Í samræmi við lög um umhverfismat og vaxandi kröfur okkar Íslendinga á sviði umhverfismála hef ég lagt ríka áherslu á vandaðan undirbúning við gerð samgöngumannvirkja. Vegagerðin hefur þróað mjög vandaðan vinnuferil við hönnun og framkvæmdir í vegagerð. Vegir um Tjörnes og um Vatnaleið eru góð dæmi um vel heppnaða vegagerð í viðkvæmu umhverfi.

Samgönguáætlun og umhverfismat áætlana

Við undirbúning nýrrar samgönguáætlunar fyrir tímabilið 2007-2018 var unnið umhverfismat áætlunar. Sem samgönguráðherra ákvað ég að setja þessa vinnu af stað þrátt fyrir að lög um umhverfsmat áætlana hefðu ekki tekið gildi. Með því eru mörkuð tímamót þegar öll ný verk á sviði samgangna eru sett í umhverfismat áætlana áður en gerðar eru tillögur um framkvæmdir. Með þessu vinnulagi er markað nýtt upphaf að vönduðum vinnubrögðum við mannvirkjagerð á sviði samgangna og jafnframt mörkuð stefna er varðar umhverfismálin í víðum skilningi. Þar er fjallað um umhverfisáhrif og leitast við að meta og hafa heildarsýn yfir áhrif samgönguáætlunar á umhverfi og samfélag og tryggja að samræmi sé í milli áætlunar og alþjóðlegra skuldbindinga okkar.

Með þessu yfirliti hef ég dregið fram staðreyndir og lýst hvernig ég hef leitast við að láta verkin tala í umhverfismálum. Er það í samræmi við þann vilja sem fram hefur komið við stefnumörkun okkar sjálfstæðismanna. Stefna Sjálfstæðisflokksins í umhverfismálum á að vera stefna sem með sanni er hægt að segja að sé hægri græn stefna í þágu komandi kynslóða. Við verðum að ganga um auðlindir okkar um leið og við nýtum þær skynsamlega þannig að komandi kynslóðir geti með sanni sagt að við höfum búið í haginn fyrir þær. Með því að byggja upp og nýta auðlindirnar okkar, kosti landsins okkar og gæði. Og við verðum að muna að verndun umhverfisins varðar fleira en það eitt að koma í veg fyrir umhverfisrask vegna virkjana og orkufreks iðnaðar.

Sturla Böðvarsson – www.sturla.is
Höfundur er samgönguráðherra