23/12/2024

Ragnar Edvardsson verður Minjavörður Vestfjarða

Ragnar Edvardsson fornleifafræðingur var á dögunum ráðinn Minjavörður Vestfjarða. Ragnar er Strandamönnum að góðu kunnur en hann hefur ásamt Magnúsi Rafnssyni sagnfræðing á Bakka í Bjarnarfirði stjórnað fornleifarannsókn í Strákatanga við Hveravík síðustu ár, þar sem fundist hefur hvalveiðistöð frá 17. öld. Það verkefni hefur verið samstarfsverkefni Strandagaldurs og Náttúrustofu Vestfjarða en Ragnar hefur verið deildarstjóri fornleifadeildar Náttúrustofunnar. Starfssvæði Minjavarðar Vestfjarða er allur Vestfjarðakjálkinn. Minjavörður hefur umsjón og eftirlit með fornleifum á svæðinu og er umsagnaraðili og ráðgjafi vegna framkvæmda er varða fornleifar og friðaðar byggingar.