22/12/2024

Raddir vorsins

Margvísleg ummerki um vorið eru orðin sjáanleg í náttúrunni, farfuglarnir flestir komnir og syngja við raust, enda er síðasti dagur vetrar í dag samkvæmt almanakinu. Indriði Aðalsteinsson á Skjaldfönn snaraði saman nokkrum vorvísum fyrir fáum morgnum, þegar náttúruhljóðin urðu sem mest í veðurblíðunni sem hefur einkennt svæðið síðustu daga.

Raddir vorsins

Í garði mínum halda konsert hundrað þrestir,
heldur tekur hag að vænka,
hlíðar fara og tún að grænka.

Kindur jarma í kofum öllum kátum rómi,
gleymt þær hafa frosti og frera,
fyrst í maí þær taka að bera.

Bæjarhrafninn lætur eins og Garðar Cortes,
þó röddin enn sé flöt og skorpin,
fyrir níu dögum orpinn.

Tófan gaggar einhvers staðar hátt í hlíðum,
eftir hjarn og hungurpínu,
hugar nú að greni sínu.

Vorið hefur tánum léttum tyllt á fjöllin,
niður brekkur ljót með læti,
lækir ærast nú af kæti.

Burt af okkar ísa landi víkur vetur,
út með sjó og inn til dala,
allar vorsins raddir hjala.

Indriði Aðalsteinsson á Skjaldfönn