22/12/2024

Perlan Vestfirðir – undirbúningsfundur

Nú er framundan stórsýning á vestfirsku mannlífi og atvinnulífi í Perlunni í Reykjavík dagana 5.-7. maí næstkomandi. Hefur hátíðin yfirskriftina Perlan Vestfirðir. Það er mikill hugur í sveitarstjórnum og fyrirtækjum á Ströndum vegna þessara hátíðahalda og er ætlunin að koma sterkt inn á þessari hátíð og kynna allt það jákvæða sem er að gerast í héraðinu með áberandi og eftirminnilegum hætti. Strandamenn hafa tekið á leigu 18 fermetra bás á hátíðinni og nú þurfa þátttakendur að hittast til að stilla saman strengi sína. Þess vegna verður haldinn skipulagsfundur vegna Perlunnar á Café Riis á Hólmavík, miðvikudaginn 5. apríl, klukkan 17:00. Þar verður til umræðu útlit og hönnun á bás, borðar, staðsetning, dreifiefni, uppákomur og þátttaka.

Mikilvægt er að sem flestir mæti á undirbúningsfundinn og leggi saman krafta sína við að slá í gegn fyrir Strandir allar. Þeir sem ekki eiga heimangengt eru hvattir til að hafa samband við Viktoríu Rán Ólafsdóttir (viktoria@atvest.is) en hún heldur utan um þátttöku Strandamanna í básnum.

Perlan Vestfirðir var síðast haldin árið 2001 og var gríðarlega góð stemmning fyrir því verkefni meðal ferðaþjóna og annarra fyrirtækja á Ströndum og góð þátttaka í kynningunni. Nú hyggjast sveitarfélögin einnig taka virkan þátt í fjörinu.