23/12/2024

Öskudagurinn tekinn með trompi á Borðeyri

Undanfarin ár hefur skapast sú ágæta hefð að haldin er skemmtun á öskudaginn í barnaskólanum á Borðeyri, þar sem börnin ásamt starfsfólki skólans koma saman og skemmta sér. Flestir klæða sig upp á í tilefni dagsins. Þarna mátti sjá hinar ýmsu persónur úr flóru mannkyns, litlar prinsessur, stórar nornir, tvær stirðar Sollur, álfkonur, sjóræningja, hermenn, kúreka, hjúkku, sjálfan skrattann, trúð og vofu, svo eitthvað sé nefnt, en myndirnar tala sínu máli.

Eins og venja er víða um land á öskudaginn þá var kötturinn sleginn úr tunnunni. Mikið gekk á og þurfti margar umferðir þar til tunnan sem í þetta sinn var ferköntuð gaf sig. En blessaður kötturinn sem var í tunnunni hafði þá breyst í hund eftir allar barsmíðarnar. Ef til vill verður hundurinn sleginn úr hundakofanum næsta öskudag. Svo var dansað og farið í leiki og að sögn Kristínar skólastjóra, sem við þetta tækifæri var Herra Kristín með yfirvaraskegg, skemmtu allir sér hið besta. Að lokum var kökuveisla að hætti Anítu matráðskonu skólans.

Hér fylgja nokkrar myndir, en miklu fleiri má finna á vefnum sgverk.com.

Öskudagur

frettamyndir/2008/580-bordeyri-osku1.jpg