23/04/2024

Nýr aðili tekur við versluninni á Norðurfirði

Fréttavefurinn ruv.is greinir frá því að tekist hafi að fá nýjan aðila til að reka verslun í Árneshreppi á Ströndum. Útibúi Kaupfélags Steingrímsfjarðar í Norðurfirði var lokað um síðustu mánaðarmót, en sveitarfélagið Árneshreppur hefur unnið kappsamlega að því að leysa málið því verslunin er sérlega mikilvæg samfélaginu í hreppnum sem er einangrað hluta vetrar. Sú vinna hefur borið árangur og nýja verslunin verður opnuð 1. nóvember.

Í fréttinni á ruv.is segir:

„Viktoría Rán Ólafsdóttir, kaupfélagsstjóri á Hólmavík, segir að Kaupfélagið hafi staðið frammi fyrir því að þurfa að endurfjármagna erfið ár til að komast yfir langvarandi rekstrarhalla: „Við leituðum til bankastofnanna og meðal annars Byggðastofnunar til að hjálpa okkur að komast yfir þetta og við endurfjármögnun þá gerði Byggðastofunun [kröfu um] að skrúfað yrði fyrir allan leka.“

Rekstur útibúa á Drangsnesi og í Norðurfirði, hafði ekki staðið undir sér lengi. Viktoría segir að eftir fund með íbúum sveitarfélaganna síðasta haust hafi íbúar á Drangsnesi breytt og lagað sína verslun til að laða að fleiri viðskiptavini og auka tekjur hennar, sem hafi skilað árangri. Þá hafi bæjarhátíð verið endurvakin sem jók jafnframt tekjur kaupfélagsins. Útibúinu þar verður því ekki lokað. Hins vegar hafi viðsnúningur í Árneshreppi ekki tekist.“