22/12/2024

Nógir peningar til í Reykjavík

Einar K. Guðfinnsson, alþingismaðurAðsend grein: Einar K. Guðfinnsson
Nú hefur borgarstjórinn í Reykjavík sjálf afhjúpað blekkinguna sem hún og nokkrir aðrir sveitarstjórnarmenn höfðu sett af stað. Þeir höfðu reynt að ljúga því að almenningi og alþingismönnum að við almennan fjárhagsvanda væri við að etja hjá sveitarfélögunum. Þetta endemisrugl var greinilega farið að virka með tilætluðum árangri, því á Alþingi og úti í þjóðfélaginu var farið að taka undir það.

Það var aldrei um almennan vanda að ræða hjá sveitarfélögunum, heldur sértæk vandamál við tilteknar aðstæður tiltekinna sveitarfélaga.

Nú hefur borgarstjórinn sýnt að málflutningur hennar og nóta hennar var innistæðulaus með öllu. Það eru nógir peningar til og þeir fjármunir sem ríkið veitti til sveitarfélaganna eiga ekki að fara í tilviki borgarinnar til að standa undir núverandi verkefnum, eins og sagt hafði verið að þörfin kallaði eftir. Fúlgurnar fara til nýrra verkefna og setja önnur sveitarfélög í vanda, eins og sveitarstjórnarmenn hafa sjálfir sagt.

Enda blasti það við að Reykjavíkurborg þurfti ekki á nýjum tekjum að halda. Inn í borgarsjóðinn streyma fjármunirnir í stríðum straumum, svo sem með stórauknum tekjum vegna fasteignaskatta. Ef það eru blankheit á þeim bænum þá stafar það af óstjórn og vanrækslu, en ekki tekjuskorti. Væl borgarstjórnarmeirihlutans í garð ríkisvaldsins er hins vegar tilefnislaust, eins og borgarstjórinn er nú sjálfur búinn að afhjúpa, með eftirminnilegum hætti.

Einar K. Guðfinnsson, alþingismaður
www.ekg.is