22/12/2024

Neytendur og bændur eiga samleið gegn innflutningi á hráu kjöti

Aðsend grein: Jón Bjarnason, þingmaður
Ísland býr við meira öryggi í hollustu kjötvara og heilbrigði búfjár en önnur lönd í Evrópu. Í þessum gæðum felst dýrmæt sérstaða okkar og framtíðarsóknarfæri íslensks landbúnaðar og matvælavinnslu undir formerkjum sjálfbærrar þróunar. Opna skal upp á gátt fyrir innflutningi á hráum kjötvörum erlendis frá. Þar með er árangursrík barátta fyrir hollustu kjötvara og heilbrigði íslensks búfjár sett í uppnám.

Gengið er erinda ártuga gamalla, úreltra kratahugmynda um galopinn innflutning landbúnaðarvara. Verði frumvarp ríksstjórnarinnar um frjálsan innflutning á hráu kjöti að veruleika verður horfið áratugi aftur í tímann hvað matvælaöryggi og matvælavinnslu varðar.

Sjúkdómum hefur verið útrýmt

Með samstilltu varnarátaki, brennd af biturri reynslu hefur okkur tekist að verja íslenska búfjárstofna gegn nýjum sjúkdómum sem reglulega herja á búfé erlendis. Er skemmst að minnast gin- og klaufaveiki faraldurs sem herjaði á Bretland nýverið, kúariðu og Kreusfeldt Jakops sjúkdóminn sem gengið getur í fólk. Höfum við hingað til fylgt fordæmi matvælaframleiðslu landa eins og Ástralíu og Nýja- Sjálands með góðum árangri, en þau leyfa ekki innflutning á hráu kjöti. Minna má að markvisst hefur verið beitt niðurskurði  til að útrýma riðuveiki í sauðfé. Með víðtækum og kostnaðarsömum aðgerðum hefur tekist nánast að útrýma camfylo sýkingum og salmonella sem herja á kjötframleiðslu víða erlendis.

Matvælaöryggi þjóðarinnar

Með því að heimila óheftan innflutning af hráum kjötvörum verðum við hluti af kjötmarkaði Evrópusambandsins og þeirra vara sem berast þangað annarsstaðar frá úr heiminum. Þær sjúkdóma- og sóttvarnir sem við höfum byggt upp varðandi kjötvörur myndu falla að mestu niður. Það hefur verið hluti af matvælaöryggi okkar að vera sjálfum okkur nóg með kjöt og mjólkurvörur. Skoðanakannanir sýna að afgerandi meirihluti þjóðarinnar vill standa vörð um íslenskan landbúnað og hreinleika hans.
Í því óvissuástandi sem nú ríkir í matvælaframleiðslu og á mörkuðum væri miklu nær að styrkja stoðir og innviði íslensks landbúnaðar og matvælaiðnaðar frekar en að slá undan þeim fótum eins og ráðherra er að gera með þessum tillögum sínum.

Heilbrigði er auðlind til framtíðar sem ekki má fórna

Ýmsir búfjársjúkdómar eru landlægir í erlendis og þar hefur búféð aðlagað sig sumum þeirra í aldanna rás. Hér hefur búféð verið einangrað og er því mótstöðuminna fyrir framandi sjúkdómum. Skemmst er  að minnast mæðiveikinnar sem lagði stóran hluta sauðfjárstofns landsmanna að velli um miðja síðustu öld.

Tilslökun á sjúkdómavörnum, eins og óheftur innflutningur á hráu kjöti er, eykur hættuna á að nýir skaðlegir  sjúkdómar berist í íslenskt búfé með ófyrisjáanlegum afleiðingum.

Með samstilltu átaki má stöðva málið

Heilbrigði íslenskra búfjárstofna og hollusta innlendra kjötvara er auðlind sem er þjóðinni dýrmæt til framtíðar og á ekki að leika sér með eða fórna að þarflausu. Þess vegna verður að stöðva frumvarp ríkisstjórnarinnar um óheftan innflutning á hráu kjöti.

Jón Bjarnason, þingmaður VG í Norðvesturkjördæmi