23/12/2024

Mikill framkvæmdahugur á Drangsnesi

Frá kynningarfundiGistirými á Drangsnesi ríflega tvöfaldast í sumar þegar nýtt gistihús að Grundargötu 17 tekur til starfa. Hjónin Valgerður Magnúsdóttir og Ásbjörn Magnússon sem reka Gistiheimilið Malarhorn á Drangsnesi og kaffihúsið Malarkaffi ætla að byggja nýtt gistihús í vor. Var íbúum á Drangsnesi nýverið boðið til kynningar á kaffihúsið Malarkaffi vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Fylgdi kynningunni kaffi og nýbakaðar vöfflur með rjóma.

Nýja húsið er rúmlega 200 fermetra bjálkahús frá Eistlandi með tíu tveggja manna herbergjum og á það að verða tilbúið í sumar. Öll verða herbergin með baði og sér inngangi. Sýndu Valgerður og Ásbjörn teikningar af húsinu og umhverfi þess. Verður það allt hið glæsilegasta.

Auk þess að reka gistihús og kaffihús hafa þau gert út bátinn Sundhana til siglinga og sjóstangaveiði í mörg ár, en nú munu þau hafa áhuga á að auka þjónustuna og bjóða upp á hvalaskoðunarferðir og þá er bara að auka gistirýmið. Mikil aukning hefur verið á ferðamönnum sem koma gagngert til landsins í hvalaskoðun og vilja geta sinnt þessu áhugamáli sínu um land allt. Það eru yfirleitt alltaf einhverjir hvalir í Steingrímsfirðinum svo ekki ættu gestir þeirra Valgerðar og Ásbjörns að verða fyrir vonbrigðum.

Frá fundinum

ferdathjonusta/580-gistih-malar4.jpg

ferdathjonusta/580-gistihus-malar1.jpg

Myndir frá fundinum og teikningar af húsinu – ljósm. Jenný Jensdóttir