22/12/2024

Með allt á hreinu! á Hólmavík

Nú standa æfingar og undirbúningur fyrir Stuðmanna söngleikinn Með allt á hreinu sem hæst. Uppsetningin er samstarfsverkefni Grunnskólans á Hólmavík og Leikfélags Hólmavíkur og er í leikstjórn Arnar S. Jónsson leikstjóri og Borgar Þórarinsson er tónlistarstjóri. Það eru á þriðja tug nemenda í 8.-10. bekk sem taka þátt í söngleiknum ásamt félögum í Leikfélaginu. Bjarni Ómar Haraldsson fer með framkvæmdastjórnina og að hans sögn eigum við von á þrusugóðri sýningu sem gleður bæði augu og eyru eldri og yngri áhorfenda. Leiksýningin er byggð á samnefndri kvikmynd Stuðmanna.

Með allt á hreinu verður frumsýnt þriðjudaginn 27. mars og 2. sýning verður 28. mars. Þriðja sýning verður laugardaginn um páskana, þann 7. apríl, og 4. sýning 11. apríl. Sýningum lýkur svo með sérstakri lokasýningu, kraftsýningu þar sem hækkað verður í botn, sunnudaginn 15. apríl. Allar sýningarnar fara fram í Félagsheimilinu á Hólmavík og hefjast kl. 20:00. Aðgangseyrir er 2.500 kr. fyrir 16 ára og eldri) en 1.500 kr. yngri en 16 ára. Miðapantanir fara fram hjá Rúnu Mæju í s. 896-4829.

Í tilkynningu frá leikhópnum kemur fram að eftirtalin fyrirtæki á Ströndum styrkja uppsetninguna Með allt á hreinu: Hólmadrangur, Hárgreiðslustofa Heiðu, KSH. Arion banki, Bjartur ehf., Sparisjóður Strandamanna, Trésmiðjan Höfði, Strandlagnir slf., Ferðaþjónustan Kirkjuból, Café Riis, Sauðfjársetur á Ströndum, Þjóðfræðistofa, Grundarorka, Jósteinn ehf., Strandafrakt, Gistiheimilið Broddanesi, Héraðsbókasafn Strandasýslu, Sóknarpresturinn Hólmavík, Sveitarfélagið Strandabyggð, Íþróttamiðstöðin Hólmavík, Óskaþrif og Hlökk ehf.