23/12/2024

Lundadagurinn dregur dilk á eftir sér

Umhverfisstofnun stendur í stappi við lundaveiðimenn sem stundað hafa lundaveiði í Grímsey á Steingrímsfirði til fjölda ára en einhverjar fyrirspurnir hafa borist til stofnunarinnar vegna veiðanna. Meðal annarra sem er undir smásjá Umhverfisstofnunar vegna málsins er Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra sem hefur tekið þátt í veiðinni ásamt heimamönnum, en dagurinn er stór viðburður á Ströndum sem endar með hefðbundinni lundaveislu á Café Riis. Að sögn Einars K. Guðfinnssonar hafði hann ekki gert sér grein fyrir að veiðikort þyrfti við lundaveiðar, en hann muni engu að síður bera ábyrgð á gjörðum sínum ef til kemur. Frásögn um Lundadaginn á Ströndum birtist í Fréttablaðinu og í framhaldinu bárust fyrirspurnir til Umhverfisstofnunar um það hvort ráðherra hefði gilt veiðikort.


Gríðarlegur fjöldi lunda er í Grímsey á Steingrímsfirði

Ljósm.: Jón Jónsson