22/12/2024

Ljóð unga fólksins

Á ljóðakvöldiÞöll, samstarfshópur um barnamenningu á bókasöfnum, efnir til ljóðasamkeppni fyrir ungt fólk á aldrinum 9-16 ára og tekur Héraðsbókasafn Strandasýslu þátt í verkefninu. Þátttakendur skiptast í tvo aldurshópa, 9-12 ára og 13-16 ára og er skilafrestur á ljóðunum til 14. mars. Árið 2006 var síðast haldin ljóðakeppni á vegum Þallar og þá var mikil þátttaka frá börnum í grunnskólum á Ströndum (Borðeyri, Hólmavík, Drangsnesi og Finnbogastöðum). Í ljóðabók sem kom út eftir keppnina Ljóð unga fólksins 2006 voru birt 65 ljóð og þar af voru 11 ljóð frá Ströndum.

Hlutverk keppninnar er að hvetja börn til skapandi skrifa og um leið að vekja athygli á bókasöfnum landsins. Þau bókasöfn sem taka þátt í verkefninu sjá um að kynna keppnina, koma upplýsingum út í skólana á sínu svæði og svo að taka á móti ljóðum. Úrval ljóða verður gefið út á bók og líklega einnig á netinu. Verðlaun verða ekki afhent á einum stað, heldur sjá þau söfn sem eiga verðlaunahafa um að koma þeim í réttar hendur á sumardaginn fyrsta eða í Viku bókarinnar.