23/12/2024

Leikskólinn Lækjarbrekka stækkaður

Lækjarbrekka leikskóli bygging framkvæmdir stækkun

Í dag eru liðin 28 ár síðan Leikskólinn Lækjarbrekka á Hólmavík var tekinn formlega í notkun, en nú er unnið að stækkun hans. Verður þriðja bilinu bætt við skólahúsið ofanvert og hafa framkvæmdir gengið vel síðan byrjað var á þeim í haust. Búið er að steypa plötuna og vonast er til að veggir verði steyptir í vikunni. Smiðir á Hólmavík unnu af kappi að framkvæmdum þegar fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is leit þar við í góða veðrinu í dag.

Leikskólinn Lækjarbrekka á Hólmavík var tekinn formlega í notkun 31. október 1988. Byrjað var að byggja leikskólann við Brunngötu 2 á Hólmavík árið 1985, eftir teikningu arkitektanna Guðmundar Kr. Guðmundssonar og Ólafs Sigurðssonar sem margir íslenskir leikskólar höfðu tekið mið af. Á sama tíma var tekin í notkun afgirtur leikvöllur með leiktækjum; sandkassa, vegasalti, rólum, rennibraut o.fl. Reynir Vilhjálmsson landslagsarkitekt teiknaði lóðina.

Leikskólinn var fullsetinn strax á fyrsta starfsári, en 17 börn voru þá í vistun fyrir hádegi og sami fjöldi eftir hádegi. Alls voru því 34 börn í skólanum, en síðustu ár hefur fjöldi barna oft verið nálægt 30 í leikskólanum og svo er einnig nú, munurinn er sá að nú er langflest börnin þar bæði fyrir og eftir hádegi.

Leikskólanum var gefið nafnið Lækjarbrekka árið 1997. Sumarið 2002 hófust síðan langþráðar framkvæmdir við stækkun húsnæðisins um helming og í ágúst árið 2003 var tekið í notkun hið nýja rými, en leikskólabyggingin var þá samtals orðin 227 m². Nú eru samsagt hafnar framkvæmdir við stækkun um þriðjung til viðbótar, þannig að húsið verður um 340 m².

Leikskólastjóri nú er Aðalbjörg Signý Sigurvaldadóttir, í fjarveru Ingibjargar Ölmu Benjamínsdóttur sem er í fæðingarorlofi.

LækjarbrekkaLeikskólinn Læjarbrekka framkvæmdir Leikskólinn Lækjarbrekka framkvæmdir img_7884 img_7886-2

Framkvæmdir við Leikskólann Lækjarbrekku – ljósm. Jón Jónsson