03/05/2024

Lay Low á Mölinni á Drangsnesi

laylow
Sunnudagskvöldið 24. nóvember næstkomandi mun Lay Low koma fram í tónleikaröðinni Mölinni á Drangsnesi. Lay Low þarf vart að kynna fyrir fólki enda hefur hún fyrir löngu síðan vakið landsathygli fyrir einstaka hæfileika sína, frábærar lagasmíðar, þróttmikinn hljóðfæraleik og silkimjúka söngrödd.  Lay Low gaf á dögunum út sína fjórðu breiðskífu sem ber heitið „Talking About the Weather“. Á nýju plötunni svífur andi sveitarinnar yfir, en Lovísa fluttist nýverið frá borginni suður á land þar sem hún hefur áður búið. Heimkoman, friðurinn og kyrrðin, æskan og sjálfstæðisbarátta listakonunnar urðu því nokkuð óvænt yrkisefni plötunnar þar sem áður ótroðnar slóðir eru fetaðar.

Á tónleikunum á Drangsnesi mun Lay Low njóta fulltingis gítarleikarans Birkis Hrafns Gíslasonar og munu þau flytja lög af nýju plötunni í bland við eldra efni. Tónleikarnir fara fram á veitingahúsinu Malarkaffi. Húsið opnar kl. 20:00 og venju samkvæmt mun Borko hefja leikinn um hálftíma síðar.  Miðaverð er 2.000.- kr.