22/12/2024

Lagasmíðalundaveiðimaður brýtur lög (sem hann setti sjálfur)

Aðsend grein: Magnús Þór Hafsteinsson, þingmaður
Sífellt fjölgar þeim – lögbrjótunum í Sjálfstæðisþingflokknum. Nú síðast bættist Einar Kristinn Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra á sakamannabekkinn. Það var áhugavert að hlusta á sjávarútvegsráðherra "útskýra" það fyrir þjóðinni hvernig stæði á því að hann hefði gerst sekur um lögbrot. Eiginlega frekar sagt; – vægast sagt afar neyðarlegt, því hér er á ferðinni ráðherra sem hefur farið mikinn í baráttu gegn ólöglegum fiskveiðum undanfarið. Bæði hér á landi og á alþjóða vettvangi. Þetta er líka dapurlegt í ljósi þeirrar staðreyndar að þessi ráðherra er æðsti yfirmaður fiskveiðieftirlits hér við land, þar sem mönnum er refsað miskunnalaust og af mikilli hörku jafnvel fyrir minnstu yfirsjónir. Ráðherrann hefur allan sinn pólitíska ferils verði dyggur varðhundur þess kerfis sem búið hefur verið til um svokallaða fiskveiðistjórnun hér við land með öllum þeim eftirlitsiðnaði, skrifræði og refsigleði sem einkennir það kerfi. En nú var sjálfur ráðherrann tekinn í landhelgi, ef svo má segja. 

Útskýringar hans á hinu ólöglega lundadrápi voru eitthvað á þá leið að vanþekking og fáfræði væri ástæða þess að hann hefur undanfarin ár stundað árlegar lundaveiðar án þess að hafa veiðikort. Nú er ég ekki veiðimaður sjálfur.  Ég þykist þó vita að þessi veiðikort hafi verið við lýði í rúm tíu ár. Til að fá veiðikort verða handhafar að gangast undir námskeið og síðan hæfnispróf. Þar skal m.a. könnuð þekking manna á undirstöðuatriðum í stofnvistfræði, náttúruvernd, dýravernd, greiningu fugla og spendýra, hlunnindanýtingu, veiðisiðfræði og þekkingu manna á meðferð veiðitækja. Þetta er allt samkvæmt reglugerð þar um. Þessi reglugerð á rætur að rekja til laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Þessi lög voru sett árið 1994 og þá sat Einar Kristinn á þingi. Hann tók þátt í umræðum um frumvarpið og er ekki annað að sjá en hann hafi kynnt sér það vel, því hann sá ástæðu til að tjá sig um rétt manna til að veiða hagamýs. 

Ellefta grein lagafrumvarpsins hófst á þessari setningu: ”Allir sem stunda veiðar á villtum dýrum, öðrum en rottum og músum, skulu afla sér veiðikorts gegn gjaldi, sbr. 3. mgr”.

Þegar atkvæðagreiðsla fór fram um einstakar greinar frumvarpsins þá var Einar Kristinn einn þeirra 35 þingmanna sem sögðu JÁ við 11. greininni. Hann var svo einn þeirra sem samþykktu frumvarpið í heild sinni við lokaafgreiðslu þann 11. maí 1994.

Lögin um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum eru mikilvægur lagabálkur enda koma þau oft til endurskoðunar hjá þinginu þar sem þeim er gjarnan breytt. Þetta gerðist til að mynda fyrir tveimur árum, – vorið 2004. Þá lagði ríkisstjórnin fram frumvarp um breytingu á lögunum. Þar var meðal annars í 7. grein átt við ákvæðið um veiðikort. Var sérstök atkvæðagreiðsla um 7. – 9. grein frumvarpsins. Síðan voru greidd atkvæði um lögin í heild sinni.

Hvar var Einar Kristinn þegar þetta gerðist í maí árið 2004? Jú hann sat í þingsalnum og nú sem formaður þingflokks Sjálfstæðismanna. Sem slíkur var hann í forsvari fyrir flokkinn við atkvæðagreiðsluna og hlaut að bera ríka skyldu til að kynna sér efni þess sem verið var að samþykkja þar sem þetta var jú stjórnarfrumvarp. Einar leiddi sinn þingflokk gegnum atkvæðagreiðslurnar fyrir tveimur árum síðan. Hann sagði þarna JÁ í atkvæðagreiðslunni um veiðikortin. Hann sagði líka JÁ í lokaatkvæðagreiðslu um frumvarpið í heild sinni.

Veiðikortin eru alþekkt hér á landi. Skoðun í gagnasöfnum fjölmiðla sýnir að þau hafa iðulega verið í hinni opinberu umræðu við ýmis tækifæri. Þrátt fyrir umræðuna og þrátt fyrir að hafa sjálfur í tvígang tekið þátt í að setja lög um veiðikortaskylduna, þá þykist alþingismaðurinn, ráðherrann og lunda- og hagamúsaveiðiáhugamaðurinn Einar Kristinn Guðfinnsson ekkert kannast við að það þurfi veiðikort til að stunda lundaveiðar! Trúi þessu hver sem vill.
 
Magnús Þór Hafsteinsson, þingmaður Frjálslynda flokksins
www.magnusthor.is