22/12/2024

Kvennakórinn Norðurljós fegrar umhverfið

Kvennakórinn Norðurljós á Hólmavík situr ekki auðum höndum þessa dagana, heldur keppast kvennakórskonur við að tína rusl við þjóðveginn. Á þriðjudag fóru þær og hreinsuðu rusl með veginum í öllum Staðardalnum og til Hólmavíkur. Í dag greip fréttamaður strandir.saudfjarsetur.is hópinn glóðvolgan þegar verið var að leggja af stað til Guðlaugsvíkur í Hrútafirði þar sem tínt var rusl í dag og stefnan var tekin á að komast í Bitruna og í kaffi á Skriðinsenni. "Kvennakórinn Norðurljós gerði samning við Vegagerðina á Hólmavík um að við færum og tíndum ruslið við þjóðveginn," sagði Salbjörg Engilbertsdóttir kvennakórskona og bætti glottandi við: "Þetta er líkamsrækt á launum."