23/12/2024

Kreppan og viðbrögð sveitarstjórna á Ströndum

Jón JónssonGrein eftir Jón Jónsson
Það er enginn vafi að kreppan er komin á Strandir og um alla landsbyggðina, líka þar sem góðærið lét aldrei sjá sig. Og verst er að svo virðist sem vandræðin séu rétt að byrja. Ýmsum opinberum framkvæmdum hefur þegar verið frestað, vegagerð og nettengingum í dreifbýlinu svo dæmi séu tekin um verkefni sem standa Strandamönnum nærri. Lán fólks og fyrirtækja sem hafa tekið erlend lán fyrir bílum, húsnæði, uppbyggingu eða atvinnutækjum síðustu árin hafa á stuttum tíma stökkbreyst í illviðráðanlegar skuldagildrur sem erfitt getur orðið að losna úr.

Á sama tíma sér verðbólgan og himinháir vextirnir sem eru helsta meinið í íslensku samfélagi um að höfuðstóll skuldanna og afborganir af innlendum lánum hækka líka úr hófi. Þessi aukna skuldabyrði leggst svo einmitt þyngst á þann hóp sem hefur verið að skapa sér og samfélaginu tækifæri til framtíðar, þá sem hafa verið að byggja upp atvinnulífið, t.d. í tengslum við landbúnað, sjávarútveg, þjónustu, menningu og listir, iðnað eða margvísleg verktakastörf.

Vöruverð og þjónusta hækkar að sama skapi og í framhaldinu verður óhjákvæmilega verulegur samdráttur í neyslu og þar með verslun og þjónustu sem fækkar störfum á því sviði. Ljóst er að gjaldþrot verða í ýmsum öðrum atvinnugreinum og fleiri störf tapast. Störf sem orðið hafa til síðustu misseri hér á Ströndum við margvíslega nýsköpun með stuðning frá ríkinu eru einnig í hættu. Framhjá þessari afleitu stöðu verður ekki litið og meira að segja bjartsýnustu menn hljóta að átta sig á þessari ógn – enda er nauðsynlegt að skilja ástandið til að grípa til varna með skynsamlegum hætti.

Tillaga sveitarstjóra Strandabyggðar um aðgerðir

Samkvæmt nýjustu fundargerð sveitarstjórnar Strandabyggðar var á síðasta fundi rætt um gerð fjárhagsáætlunar og tekin fyrir tillaga frá sveitarstjóra um málið. Tillagan snérist um að ekki yrði farið í neinar framkvæmdir á næsta ári, ekki yrði ráðið í stöður sem losna, auk þess sem sveitarstjóri lagði til að skoðað yrði hvort leggja eigi af alla þjónustu sem ekki er lögbundin, sjá fundargerðina undir þessum tengli.

Nú hef ég ekki setið í sveitarstjórn svo mér er ekki fullkomlega ljóst hvaða verkefni eru lögbundin og hver ekki, en þarna er væntanlega átt við mikilvæg verkefni sem sveitarfélagið hefur tekið upp á sína arma eins og mötuneyti skólabarna í hádeginu, skólaskjólið og félagsstarf eldri borgara. Þarna er líklega einnig átt við stuðning við íþrótta- og æskulýðsstarf og ýmis menningarverkefni á svæðinu. Bæjarhátíðin Hamingjudagar á Hólmavík er þá sennilega í uppnámi. Eins er rekstur félagsmiðstöðvar, tónlistarskólans, leikskólans, upplýsingamiðstöðvar ferðamanna, íþróttamiðstöðvar, sundlaugar og hafnarinnar líklega ekki lögbundin svo einhver dæmi séu nefnd.

Ef farið er eftir tilögu sveitarstjóra um að ekki verði farið í neinar framkvæmdir á næsta ári myndi slíkt einnig koma í veg fyrir uppbyggingu sem nauðsynleg er, t.d. vegna Unglingalandsmótsins 2010 (sem ég myndi velja gleðitíðindi ársins fyrir Strandir), hafnarframkvæmdir sem voru fyrirhugaðar, malbikun gatna sem nefnd hefur verið, framkvæmdir á skólalóðinni og raunar allt annað að viðhaldsverkefnum slepptum. Þá er talað um að ráða ekki í stöður sem losna, en vandséð er að það geti gengið upp og sé í öllum tilvikum hagkvæmt. Ekki er annað að sjá af fundargerðinni sem þó er fámál um skoðanir sveitarstjórnarinnar, en að sveitarstjórnarmenn hafi tekið vel í þessar hugmyndir sveitarstjórans, að minnsta kosti samþykktu þeir samhljóða að fara í gerð fjárhagsáætlunar og gæta „ítrasta aðhalds“.

Ekki gera ekki neitt – það gerir bara illt verra

Auðvitað er á öllum tíma sjálfsagt að bruðla ekki með fjármuni, en satt best að segja líst mér ekki á blikuna, ef þarna er verið að gefa tóninn fyrir rekstur sveitarfélagsins næstu ár. Mér finnst tillagan, hugmyndafræðin og áherslan fjarskalega neikvæð og sé ekki betur en aðgerðir í þessum anda hafi beinlínis í för með sér fækkun starfa sem aftur getur leitt til neikvæðrar víxlverkunar þar sem önnur þjónusta dregst saman og störfum og íbúum fækkar. Einnig finnst mér fundargerðin senda út óþarflega neikvæð skilaboð og þegar maður skoðar aðrar fundargerðir sveitarstjórnar og nefnda sveitarfélagsins lengra aftur í tímann finnst manni að umræðan um lausnir hafi líka verið heldur fátækleg, alla vega enn sem komið er. Það virðist ekki einu sinni eiga að gera tilraun til að mæta þrengingum á landsvísu með því að grípa til varna. Eru þessi viðbrögð ekki yfir strikið? Vill einhver búa í samfélagi þar sem stefnan hefur verið tekin á niðurskurð umfram allt annað, þar sem ekkert er að gerast og ekkert á að gera?

Sveitarfélag er auðvitað ekkert annað en samfélag, samfélag þess fólks sem býr og starfar á ákveðnu svæði. Það er einkar mikilvægt að yfirvöld sveitarfélaga skilji þetta og einbeiti sér að því þegar harðnar á dalnum að finna mótleiki og grípa til aðgerða, til að tryggja að þrengingar og erfiðleikar hafi ekki jafn slæm áhrif og ella. Eins og Þorgeir Pálsson framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða orðaði þetta í grein hér á vefnum á dögunum, þarf með öllum tiltækum ráðum að koma í veg fyrir að „að sú kreppa sem nú er skollin á, verði afsökun fyrir því að „gera ekkert“.“

Göngum ekki í lið með kreppunni

Í staðinn fyrir að ganga í lið með kreppunni, leggjast í vonleysi og doða og ala þannig á þessum andstyggðar ólánsfylgifiskum kreppunnar, þurfa sveitarstjórnir á svæðinu að leita leiða til að milda áhrifin, finna og greina sóknarfærin og safna saman vopnum sínum. Verkefnið er alveg klárt, það þarf að finna margvíslegar leiðir til að auka lífsgæði íbúanna. Það þarf frekar en nokkru sinni í góðæri að skapa ólíkum einstaklingum tækifæri og möguleika á fjölbreyttu sviði.

Þegar harðnar á dalnum hjá íbúunum, fólki og heimilum, þarf samfélagið sem sveitarfélagið er að grípa inn í með sem allra jákvæðustum hætti. Þá þarf að styðja sem aldrei fyrr við mannlíf, menningu, nýsköpun og atvinnusköpun – þá jákvæðu þætti sem einkenna Strandamenn og mikilvægastir eru fyrir ímynd svæðisins og sjálfsmynd heimamanna. Það þarf að finna út hvaða verkefni kosta lítið en skila miklu. Það þarf að efla atvinnustigið og skapa heimilunum fjölbreytt tækifæri til að afla sér aukatekna. Fólkið á Ströndum þarf á því að halda núna til að geta borið auknar afborganir af lánum og hækkandi vöruverð. Það þarf að peppa fólk upp og tala í það kjarkinn, gera mikið úr litlu. Þetta er hlutverk sveitarstjórna.

Það þarf að snúa vörn í sókn.

Jón Jónsson,
þjóðfræðingur á Kirkjubóli í Strandabyggð