26/12/2024

Jólamarkaður Strandakúnstar opnar á morgun

Jólamarkaður handverkshópsins Strandakúnstar opnar á morgun og verður að þessu sinni á Galdrasafninu á Hólmavík. Þar verður að vanda margvíslegur söluvarningur í boði, sokkar, vettlingar, húfur og önnur hlýlegheit sem gagnast vel í óveðrum vetrarins. Að auki verður þar ýmislegt annað handunnið góss og góðgæti á boðstólum. Jólamarkaður Strandakúnstar verður opinn alla daga fram að jólum frá klukkan 14:00 – 18:00. Ásdís Jónsdóttir sér um jólamarkaðinn að vanda og hún segir að það sé aldrei að vita nema jólasveinar slæðist inn þegar líður á vikuna. Hún vill benda þeim á sem eru með sölugóss að koma því til hennar á markaðinn eða á Höfðagötu 7. Síminn hjá Ásdísi er 694-3306. "Það verður líka opið á Þorláksmessu," segir Ásdís glaðhlakkaleg að vanda.