23/12/2024

Jarðgöng í Ísafjarðardjúpi

Aðsend grein: Steinþór Bragason
Þann 12. desember 2006 opnar Vegagerðin útboð vegna vegalagningar fyrir Reykjanes og Vatnsfjörð í Ísafjarðardjúpi ásamt brúarsmíði yfir Mjóafjörð. Þrátt fyrir þann góða hug sem liggur að baki þessarar áætlunar eru ýmsir meinbugir á fyrirhugaðri framkvæmd. Ekki er um neina styttingu vegalengda að ræða m.v. núverandi leið yfir Eyrarfjall, öryggi vegfarenda er ekki sett á oddinn með slíkri hlykkjóttri vegalagningu, og tæpast er um arðsemi að ræða þegar hvorki er stefnt að styttingu leiða né auknu umferðaöryggi. Samkvæmt tölum frá Umferðarráði sem birtar eru á heimasíðu Vegagerðarinnar varð þriðjungur umferðaóhappa í Ísafjarðadjúpi á árunum 2000 til 2004 á umræddri leið fyrir Vatnsfjörð. Til að kóróna klaufaskapinn hefur ekki enn verið samið við eiganda eyjarinnar í Mjóafirði sem brúin á að fara um.

Það er mat mitt að mun vænlegri kostur sé að gera rúmlega fjögurra km jarðgöng frá botni Mjóafjarðar yfir í Ísafjörð samhliða endurbótum nærliggjandi vega. Sú leið yrði fljótfarnari, öruggari og hagkvæmari en fyrirhuguð leið Vegagerðarinnar. Jafnframt er vegurinn allur færður niður á láglendi sem auðveldar vetrarakstur.

Er of seint að stöðva framkvæmdirnar? Hugsanlega, ef menn hafa einsett sér að gera mistök virðist fátt geta stöðvað þá. Engu að síður vil ég biðja þig lesandi góður að líta við á heimasíðu minni www.steinthor.com og kynna þér málið. Þar gefst þér einnig kostur á að sýna hug þinn í verki og skrá þig á undirskriftalista með jarðgangnagerð milli Ísafjarðar og Mjóafjarðar, og þar með gegn þessari vafasömu framkvæmd sem fyrirhuguð er. Úboðið má nálgast á heimasíðu vegagerðarinnar: http://www.vegagerdin.is/framkvaemdir-og-vidhald/utbod/auglyst-utbod/nr/1228.

Steinþór Bragason, Ísafirði