22/12/2024

Íslandsmót í hrútadómum á Sauðfjársetrinu


Hið árlega Íslandsmeistaramót í hrútadómum verður haldið á Sauðfjársetrinu í Sævangi laugardaginn 18. ágúst og hefst kl. 14:00. Þar verður keppt í tveimur flokkum, þeir sem eru vanir að stiga hrúta keppa um Íslandsmeistaratitil, en einnig er keppt í flokki óvanra hrútaþuklara. Strandamenn eiga titil að verja þetta árið, en það var Guðbrandur Sverrisson á Bassastöðum sem sigraði í fyrra. Fleira verður til skemmtunar og fróðleiks, m.a. rúningur með gamla laginu í Kirkjubólsrétt og dýrindis kaffihlaðborð verður á boðstólum á Sauðfjársetrinu allan daginn, en kjötsúpa í hádeginu. Sú nýbreytni verður í tengslum við keppnina á þessu ári að upphitun verður fyrir hrútadómana föstudagskvöldið kl. 19:30, en þá verður haldið námskeið í hrútaþukli á Sauðfjársetrinu fyrir vana og óvana.

Ókeypis er á námskeiðið, en kaffi og vöfflur til sölu á Sauðfjársetrinu.