23/12/2024

Íslandsmet í planki á Hamingjudögum

 Plankið svokallaða hefur farið sigurför um landið undanfarnar vikur. Plankið snýst um að fólk leggst á magann, helst á óvenjulegum stað eða í skrýtnum aðstæðum, með andlit á grúfu, hendur meðfram síðum með lappir og tær beinar. Plankið er síðan skýrt einhverju nafni og því deilt á internetinu. Á föstudegi á Hamingjudögum á Hólmavík er stefnt að því að setja formlegt Íslandsmet í hópplanki með því að fá sem flesta gesti á kvöldvöku á Klifstúni til að planka í einu. Eins og sjá má á myndinni sem fylgir þessari frétt plankaði sveitarstjóri Strandabyggðar, Ingibjörg Valgeirsdóttir, í einskærri gleði yfir þessum óvenjulega dagskrárlið.

Menn eru hvattir til að æfa sig úti í garði fram að hópplankinu. Þeir sem þjást af frjókornaofnæmi ættu þó að fara varlega í að planka í grasinu og rétt er að minna menn á að planka ekki á hættulegum stöðum!