22/12/2024

Hvalur að leik í „miðbæ“ Hólmavíkur

Hvalur sást að leik nánast  í miðbæ Hólmavíkur núna rétt fyrir klukkan fimm í dag. Lesandi strandir.saudfjarsetur.is hafði samband við ritstjórnarskrifstofuna og lýsti því beint í símann hvernig stór hvalur lék sér rétt utan við fjöruna neðan við sýslumannsbústaðinn á Hólmavík. Þessi stórkostlegu spendýr hafa verið algengir gestir í Steingrímsfirði undanfarið og þó nokkrar tilkynningar hafa borist til Strandagaldurs um hvalakomur í fjörðinn, en ætlunin er að skrá þær niður og nýta niðurstöðurnar til hvalaskoðunar af landi í Steingrímsfirði eftir nokkur ár. Tilkynningar um hvalakomur skulu sendar á netfangið galdrasyning@holmavik.is.

Strandagaldur vil koma þökkum á framfæri til þeirra sem hafa tilkynnt um hvalakomur og hvetur alla íbúa svæðisins að láta vita af þeim. Þá er ágætt að fram komi nokkurnvegin hvar á firðinum hvalur sést og á hvaða degi.