22/12/2024

Hvað gerir Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða?

Aðsend grein: Þorgeir Pálsson og Shiran Þórisson
Þorgeir og ShiranNafn félagsins er víðfeðmt og draga allflestir þá ályktum að ATVEST sé eingöngu í því hlutverki að þróa ný störf. Svo er ekki, því almenn öflun og miðlun fagþekkingar til viðskiptavina fyrirtækisins er mikilvægur liður í starfinu. Atvinnusköpun er vissulega óbein afleiðing af því sem við gerum en er ekki eini mælikvarðinn  fyrir það þróunarstarf sem er daglega í gangi hjá félaginu. ATVEST tekur þátt í atvinnusköpun frumkvöðla og fyrirtækja á frumstigum og oftast á sviði rannsóknar, upplýsingaröflunar eða faglegra úrlausna viðskiptatengdra vandamála.

 

Árangurinn af því er ánægður viðskiptavinur og árangur ánægðs viðskiptavinar  er framlag í hagkerfið með atvinnu- eða verðmætasköpun. Í þessu samhengi þarf að hafa í huga að lokanir fyrirtækja eða efnahagskreppa er  vandamál sem félagið getur ekki brugðist við með skjótum og beinum hætti.

Dæmi um starfsemi félagsins eru eftirfarandi:

Félagð hjálpar fjölmörgum fyrirtækjum á ári hverju í leit sinni að fjármagni. Þetta á við styrki, leit að hlutafé og lánsfjármagni. Nýjustu dæmi um árangursrík störf ATVEST hvað þetta varðar eru styrkveitingar úr mótvægissjóði ríkisstjórnarinnar þar sem að fyrirtækið aðstoðaði fjölmörg fyrirtæki víðsvegar um Vestfirði. Útkoman var sú að svæðinu var úthlutað hlutfallslega hæstu styrkjunum og hátt hlutfall þeirra sem leitað aðstoðar félagsins fékk jákvæða afgreiðslu.

ATVEST tekur á hverjum tíma þátt í mörgum verkefnum með frumkvöðlum við að kortleggja ný tækifæri eða bæta núverandi rekstur.  Þessi þáttur er tiltölulega fyrirferðamikill í rekstri ATVEST og á einu ári leita til fyrirtækisins rúmlega  100 fyrirtæki og frumkvöðlar.  Þróunin er oftast sú að þegar fyrirtækin stækka þá leita þau síður til okkar og eru sjálfbær í því sem þau eru að gera.  Árangur af þessum hluta starfs ATVEST er tvíþættur;  Aðilar hafa verið stöðvaðir áður en farið er í óarðbæran rekstur og aðilar eru nú þegar í rekstri sem verið er að byggja upp.

Sérverkefni eru ýmisleg og ber þar helst að nefna Vaxtarsamning Vestfjarða.  Þátttakendur í verkefnum Vaxtarsamningsins eru um 70  fyrirtæki og einstaklingar og sum þeirra þau sömu sem leita hefðbundinnar ráðgjafar.  Verkefni þar eru flokkuð eftir atvinnugreinum og hafa sjávarútvegstengd verkefni og ferðaþjónustutengd verkefni verið áberandi á síðustu 2 árum.  Dæmi um verkefni sem unnin hafa verið eru;  lækkun flutningskostnaðar, lækkun raforkukostnaðar, þróun á bláskeljarækt, markaðsrannsókn fyrir ferðaþjónustu, úttekt á samstarfsmöguleikum við A-Grænland, samstarfsverkefnið Arnkatla (ferðaþjónusta) og samstarfsverkefnið Breiðarfjarðarfléttan (ferðaþjónusta).  Þessu til viðbótar hefur samningurinn fjárfest í ímyndarverkefnum sem munu skila sér til lengri tíma.

Greiningar  og rannsóknar vinna er órjúfanlegur þáttur í tilvist ATVEST. Nokkur verkefni sem vert er að nefna eru:
· Rannsókn á svæðisbundnu vörumerki fyrir sjávarútveg, hugsanlega með tengingu við aðrar atvinnugreinar .
· Rannsókn á vestfirska hagkerfinu, haglýsingar og greiningar tengdar því.
· Greining iðnaðartækifæra.
· Greining á stoðkerfinu fyrir ferðaþjónustuna.

Þessu til viðbótar eru unnar greiningar og rannsóknir fyrir einstaka verkefni og viðskiptahugmyndir eftir aðstæðum. Öll þessi þekkingaröflun er nauðsynleg forsenda þess að ATVEST geti boðið áframhaldandi faglega þjónustu og stuðning við einstaklinga, fyrirtæki og sveitarfélög á Vestfjörðum.

Hvetjandi er fjárfestingarfélag sem ATVEST mun þjónusta og framkvæmdarstjóri ATVEST sinnir sjóðsstjóra starfinu. Þarna er tækifæri fyrir fyrirtæki sem þurfa aðstoð við sína útrás, nýsköpun og vöruþróun. Hvetjandi getur fjárfest í fyrirtækjunum með því markmiði að fá sanngjarna ávöxtun út frá ávöxtunarkröfu stjórnar sjóðsins.

Sem betur fer hefur þeim aðilum sem starfa við þróun svæðisins í heild sinni fjölgað sbr. Nýsköpunarmiðstöð Íslands og aðrir staðbundnari aðilar eins og Alsýn sem sinnir verkefnum er varða uppbyggingu innan Ísafjarðarbæjar. Þessari fjölgun ber að fagna. Þessir aðilar hafa keimlík hlutverk en starfa á ólíkan máta. Í ljósi þessarar fjölgunar er mikilvægt að hnykkja á ofangreindum atriðum úr starfi ATVEST. Það er ávallt mikilvægt að undirstrika og benda á þá þekkingu sem til staðar er, hvort heldur sem hún er innan ATVEST eða meðal einstaklinga og fyrirtækja á Vestfjörðum, því staðreyndin er oftast sú, að starfsemi fyrirtækja á borð við ATVEST byggir á því að hugmyndir séu til staðar í atvinnulífinu og samfélaginu. Áskorunin felst í að greina þessar hugmyndir og tækifæri, virkja einstaklingana og þeirra frumkvæði og koma góðum verkefnum áfram.

Að lokum

ATVEST býr yfir áratuga staðbundinni reynslu, auk þess hafa ýmis „tæki og tól“ og fagþekkingu sem geta nýst viðskiptahugmyndum  og tækifærum til framdráttar. Samfellan í þeirri þjónustu sem fyrirtækið getur boðið fyrirtækjum er mikil og þjónusta félagsins er öllum endurgjaldslaus upp að vissu marki.

Styrkleikar og veikleikar okkar starfs eru ávallt nátengdir stöðu atvinnulífs og efnahags. Drifkrafturinn verður ávallt tengdur athafnamönnum, frumkvöðlum, framsýnum sveitarstjórnarmönnum og konum og fyrirtækjum svæðisins. Í mörgum tilfelum sveiflast okkar starf í samhengi við efnahagsástandið almennt. Sem dæmi má nefna að þessa dagana er erfitt fyrir frumkvöðla að finna fjármögnun og miðað við spár sérfræðinga mun það ástand vera viðvarandi fram á mitt næsta ár. Þrátt fyrir að þessar aðstæður sé slæmar til skemmri tíma þá gefur það ákveðið svigrúm til að útfæra viðskiptahugmyndir betur þangað til að það verður aukið aðgengi að lánsfjármagni. Tíminn vinnur þannig með okkur.

ATVEST getur aðstoðað það hugsjónafólk sem býr og starfar á Vestfjörðum og vill leggja sitt af mörkum til auka veg og vanda Vestfjarða. Hugsjónin þarf að vera sú að koma efnahag svæðisins a.m.k. í fyrri hæðir og ákjósanlega ofar. Við höfum séð það ítrekað í starfi okkar að á svæðinu er mikið af fólki sem er tilbúið til athafna sbr. það gríðarlega mikla magn umsókna um fjármögnun verkefna sem bárust í mótvægissjóði ríkisstjórnarinnar. Þó er mikilvægt að hafa í huga að til að styðja frekari vöxt svæðisins og auka hagvöxt verða verkefni að hafa ákveðnar áherslur. Verkefni eiga gjarnan að fela í sér aukinn útflutning og eða auknar tekjur inn á svæðið þ.e.a.s. að tækifærin snúist meira og minna um að koma með nýtt fjármagn inn á svæðið.  Önnur lykilatriði sem þarf að setja í samhengi við þetta eru nýsköpun, þekkingaröflun og –miðlun, vöruþróun og aukin sérhæfing.

Það er von okkar hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða og Vaxtarsamningi Vestjarða að þessi grein setji ákveðna hluti í rétt samhengi og hvetji lesendur til þess að hugsa út frá þeirri hugsjón sem meðal annars er fjallað um og kíkja við á starfsstöðvum okkar til þess að ræða málin.

Starfsstöðvar ATVEST eru á Ísafirði, Patreksfirði og Hólmavík. Aðalsímanúmer félagsins er 450-3000 og veffang www.atvest.is.

Neil Shiran Þórisson,
framkvæmdarstjóri Vaxtarsamnings Vestfjarða

Þorgeir Pálsson,
framkvæmdarstjóri Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða