09/01/2025

Hjartastuðtæki og súrefnistæki

Eins og áður hefur komið fram hér á strandir.saudfjarsetur.is var haldið námskeiðið í skyndihjálp á Borðeyri í febrúar síðastliðnum sem Gunnar Jónsson á Hólmavík hafði veg og vanda af. Þar kom fram mikill áhugi hjá þeim sem sóttu námskeiðið á að hjartastuðtæki yrði keypt og staðsett í Bæjarhreppi. Ekki var látið standa við orðin tóm heldur var farið af stað með söfnun fyrir slíku tæki. Kvenfélagið Iðunn í Bæjarhreppi stóð fyrir þessu virðingarverða framtaki og safnaðist fé frá félagasamtökum í hreppnum, sveitasjóði og einn einstaklingur lét fé af hendi rakna til málefnisins.

Þegar yfir lauk þá hafði safnast það ríflega að þegar fjárfest hafði verið bæði í hjartastuðtæki og súrefnistæki, var afgangur sem stendur til að nota til kaupa á sjúkrabörum. Gunnar Jónsson á Hólmavík sá um að útvega tækin.  

Þann 16. júní var svo boðið til veislu í skólanum á Borðeyri þar sem Kristín Árnadóttir formaður Kvenfélagsins afhenti Bæjarhreppsdeild Björgunarsveitarinnar Káraborgar á Borðeyri hinn nýja björgunarbúnað til varðveislu og afnota. Hannes Hilmarsson formaður Bæjarhreppsdeildar veitti þessari góðu gjöf viðtöku. Tækin verða svo í bíl sveitarinnar sem staðsettur er á Borðeyri.

Við þetta tækifæri mættu um fjörutíu manns, sem fengu grunnkennslu í meðferð tækjanna hjá Gunnari. Allir vona að aldrei þurfi að nota slíkan búnað, en það gerist fyrirvaralaust og veitir hann mikið öryggi. Það hefur margsannast að hjartstuðtæki hefur reynst lífgjafi þar sem þau hafa átt við. Þess má geta að þegar mjög alvarlegt bílslys varð í Skagafirði í sumar, þar sem einn beið bana og aðrir slösuðust illa, komu tækin sér vel. Þar var bíll sveitarinnar ásamt hinum nýju tækjum staðsettur vegna Landsmóts hestamanna, en súrefnistækin voru þau einu sem voru tiltæk á staðnum. Að sögn læknis á staðnum er talið að þau hafi skipt sköpum um björgun mannslífs þar

Frá afhendingu tækjanna og kennslu Gunnars