22/12/2024

Heiða þakkar innilega fyrir sig

Elín og Allý stjórnuðu þætti í Útvarpi Hólmavík FM 100,1 á milli klukkan 16:00 og 18:00 í þemaviku Grunnskólans á Hólmavík. Þær tóku viðtal við Heiðu Ólafs í beinni útsendingu í dag sem birtist hérna á strandir.saudfjarsetur.is, fyrir þá sem misstu af því. Í viðtalinu kemur fram að Heiða er afar þakklát fyrir allan stuðninginn við hana í Idolinu og hún biður fyrir bestu kveðjum til allra sem studdu hana og hvöttu hana áfram.

Hvernig finnst þér að hafa komist svona langt í Idolinu?
Það er bara frábært. Það var svo gaman að komast í úrslitaþáttinn, því þá fékk maður að syngja í öllum þáttunum sem er alveg æðisleg tilfinning. Svo er Hildur Vala svo æðislegt og það var svo gaman hjá okkur tveimur síðustu vikuna.

Færðu ekki mikla athygli eftir þetta?

Jú ég fæ svolitla athygli. Það er svolítið verið að stoppa mann og heilsa manni en það eru allir voða jákvæðir, svo það er allt í lagi.

Hvaða þema í þáttunum fannst þér skemmtilegast?

Mér fannst diskó-þemað og svo náttúrulega stórsveitar-þemað. Það var alveg ótrúlega skemmtilegt að fá að syngja með svona alvöru stórsveit og vera í svona fínum kjól. Já, ég held að það sé eftirminnilegasta þemað.

Hvað ferð þú að gera núna þegar Idolið er búið?

Núna fer ég bara að setjast niður aðeins og hugsa hvað ég vil gera í músíkinni og að anda og aðeins að slappa af. Svo vonandi bíður mín eitthvað spennandi verkefni.

Hvenær ætlar þú svo að koma til Hólmavíkur og hitta okkur?

Ég ætla að koma um páskana og ég get ekki beðið, ég er alveg búin að vera að telja niður dagana þannig að ég er mjög spennt. Það er alltaf svo gott að koma til mömmu og hitta alla.

Fannst þér ekki gaman að sjá beina útsendingu frá Hólmavík?

Jú, mér fannst það æðislegt. Ég var náttúrulega alveg með tárin í augunum yfir  hvað allir voru samstíga og yfir stuðningnum og ég bara trúi þessu varla ennþá. Ég er alveg í skýjunum með þetta. Alveg æðislegt. Ég vona bara að allir hafi skemmt sér rosa vel líka. Mig langar líka að þakka fyrir en ég fékk alveg ótrúlega fallegan blómvönd sendan frá íbúum Hólmavíkurhrepps og það þótti mér alveg ótrúlega vænt um. Ég fékk hann sendan í Smáralindina á föstudeginum áður en þátturinn fór í loftið svo það gaf mér aukinn kraft að kýla á það, eftir að hafa fundið hvað allir styðja mann.
 
Hvaða lag finnst þér skemmtilegast að syngja, ef þú átt eitthvað eitt lag?

Mér fannst rosalega gaman að syngja Total Eclipse of My Heart í keppninni, eftir Bonnie Tyler og svo auðvitað Slappaðu af. Mér finnst það alveg geggjað lag. Maður getur ekki annað en farið í stuð þegar maður syngur það lag. Og bara allskonar lög.
 
Er eitthvað sem þú vilt segja við Strandamenn sem hafa stutt þig og kosið í Idolinu?

Já, ég er alveg ótrúlega glöð að fá tækifæri til að fara í útvarpið hjá ykkur og vona bara að sem flestir séu að hlusta svo ég geti þakkað kærlega og innilega fyrir allan stuðninginn. Ég er ennþá alveg orðlaus. Ég er búin að vera að laumast til að kíkja inn á strandir.saudfjarsetur.is og ég er nú svo mikil tilfinningavera að ég er alltaf með tárin í augunum við það, en vil bara þakka kærlega fyrir allan stuðninginn og samstöðuna og ég þakka sérstaklega Sigga Marra og Sigga Atla og Adda og öllum þeim sem komu að því að skipuleggja lokakvöldið og öll hin þrjú kvöldin, en ég á ekki orð yfir hvað ég er þakklát og glöð. Það er frábært fólk á Hólmavík, það er bara ótrúlegt. 

Þetta var flott ræða. Viltu segja eitthvað meira?

Nei, nei ég vil bara aftur segja takk og hlakka til að sjá ykkur öll um páskana og vona að ég rekist á sem flesta.
 
Ok- takk fyrir viðtalið.

Það var lítið. Ég segi bara góða helgi til allra og gangi ykkur vel með þáttinn. Bæ-bæ.