22/12/2024

Háskólakennsla hefst á Hólmavík

"Föstudagurinn 23. febrúar verður merkisdagur hér á Ströndum, en þá fer í fyrsta skipti fram kennsla á háskólastigi á Hólmavík þar sem heimamenn sjá um kennsluna," segir Jón Jónsson þjóðfræðingur í samtali við strandir.saudfjarsetur.is. Von er á 15-20 manna hópi af meistaraprófsnemum í Hagnýtri menningarmiðlun við Hugvísindadeild Háskóla Íslands, en Eggert Þór Bernharðsson sagnfræðingur hefur umsjón með þessari námsbraut. Þeir eru að taka námskeið um menntatengda ferðaþjónustu sem verður startað á Hólmavík og sjá Strandagaldursmenn um kennsluna sem fram fer á Café Riis. Svo heldur námskeiðið áfram á Ísafirði um helgina, en það er haldið á vegum Háskóla Íslands og Háskólaseturs Vestfjarða.

"Strandagaldur er líklega eitt af örfáum ferðaþjónustu- og menningarstofnunum í landinu sem hafa búið sér til áætlun um að hasla sér völl í menntatengdri ferðaþjónustu. Þetta plan byggir á þeim grunni sem þegar hefur verið lagður með menningartengdu ferðaþjónustunni sem er framarlega á landsmælikvarða hér á Ströndum. Í menntengdri ferðaþjónustu felast miklir möguleikar á uppbyggingu og eflingu ferðaþjónustu utan háannatíma,"  segir Jón í viðtali við fréttaritara strandir.saudfjarsetur.is.

"Þessa áætlun höfum við gert innan ramma Þjóðtrúarstofunnar sem er að byrja að láta að sér kveða og ætlum að kynna hugmyndina um menntatengda ferðaþjónustu og verkefni Strandagaldurs fyrir nemendunum. Þessi fræði eiga langa sögu víða í Evrópu og byggja á hugmyndafræði sem hentar aðstæðum á Ströndum og Vestfjörðum ljómandi vel. Það er ánægjulegt og um leið dálítið spaugilegt að geta byrjað að fylgja planinu um sókn á sviði menntatengdrar ferðaþjónustu með því að kenna háskólanemum í framhaldsnámi um sjálft fyrirbærið."

Sigurður Atlason framkvæmdastjóri Strandagaldurs, Magnús Rafnsson sagnfræðingur og Jón Jónsson þjóðfræðingur taka allir þátt í kennslunni á Hólmavík og auk kennslustundanna verður Galdrasýningin skoðuð og verkefni Strandagaldurs kynnt. Í samtali við Jón kemur fram að ákveðið hefur verið að Þjóðtrúarstofa taki þátt í kennslu um þjóðhætti og daglegt líf í sveitasamfélagi fyrri alda í þjóðfræði við Félagsvísindadeild Háskóla Íslands næsta vetur og fleiri svipuð verkefni og samvinna sé á döfinni eða komin af stað.

Nánar má fræðast um námskeiðið á heimasíðu Háskólasetursins – www.hsvest.is.