22/12/2024

Harðari viðurlög við umferðarlagabrotum

Akið varlegaNýlega gengu í gildi ýmsar breytingar á umferðarlögum sem varða meðal annars hert viðurlög við umferðarlagabrotum og breytingar á reglugerð um gerð og búnað ökutækja sem flytja hreyfihamlaða. Einnig hefur tekið gildi ný reglugerð um öryggisbúnað fyrir börn og notkun öryggisbelta. Fela þær meðal annars í sér hærri sektir við brotum og strangari refsingar við brotum ungra ökumanna sem eru með bráðabirðgaökuskírteini. Þá er sérstaklega tekið á stórfelldum og ítrekuðum brotum og nú má jafnvel gera ökutæki upptæk í þeim tilvikum.

Breytingin á umferðarlögunum felur meðal annars í sér hertar sektaraðgerðir vegna umferðarlagabrota. Þannig segir í nýrri grein laganna að ,,þegar ekið er meira en tvöfalt hraðar en heimilt er skal svipting ökuréttar ákvörðuð eigi skemur en þrjá mánuði.” Þá er í lögunum nýtt ákvæði sem segir að lögregla skuli banna byrjanda sem hefur bráðabirgðaökuskírteini að aka hafi hann fengið fjóra eða fleiri punkta samkvæmt punktakerfi vegna umferðarlagabrota. Þessu banni má þó aðeins beita einu sinni á gildistíma bráðabirgðaökuskírteinis. Akstursbannið gildir þar til byrjandinn hefur sótt námskeið og tekið ökupróf að nýju.

Annað nýmæli laganna er að þegar um stórfelldan eða ítrekaðan ölvunarakstur, hraðakstur eða akstur án ökuréttinda er að ræða má gera ökutæki upptækt sem notað var við brotið nema það sé í eigu annars manns sem ekki er við brotið riðinn. Við sömu aðstæður má gera upptækt ökutæki þess sem hefur framið tilgreind brot enda þótt það ökutæki hafi ekki verið notað þegar brot var framið.

Í reglugerðinni um gerð og búnað ökutækja sem tekur gildi á morgun eru ný ákvæði um notkun öryggisbelta til verndar hreyfihömluðum farþegum sem ferðast með ökutækjum. Bifreið sem notuð er til að flytja hreyfihamlaða skal að minnsta kosti búin þriggja festu öryggisbeltum og öðrum búnaði sem hæfir. Það sama á við um ökutæki sem notað er til flutnings á hreyfihömluðum í hjólastólum. Er búnaðinum lýst nánar í reglugerðinni og þar er einnig að finna nýjar skilgreiningar á flokkun ökutækja.

Ný reglugerð um öryggis- og verndarbúnað í ökutækjum hefur tekið gildi. Nýmæli er að skylt er bílstjóra, leiðsögumanni eða fararstjóra að tilkynna farþegum hópbifreiða um notkun öryggisbelta meðan ekið er. Þessa tilkynningaskyldu má einnig uppfylla með hljóð- eða myndbandsupptöku. Einnig skal leitast við að kynna fyrir farþegum skólabíla mikilvægi þess að nota öryggisbúnað. Sérstök ákvæði eru um notkun öryggis- og varnarbúnaðar fyrir börn í ökutækjum og hvaða kröfur búnaðurinn skuli uppfylla. Áhersla er lögð á að þess sé gætt að  búnaðurinn hæfi börnum miðað við þyngd og stærð og sé í samræmi við gerð og búnað viðkomandi ökutækis.