22/12/2024

Hálft tonn af rusli!


Nemendur í Grunnskólanum á Hólmavík gerðu aldeilis góða hluti í fegrun Hólmavíkur í dag á árlegum umhverfisdegi skólans. Nemendur skólans fóru eins og stormsveipur um bæinn og tíndu ógrynnin öll af rusli. Herlegheitin voru síðan vigtuð á hafnarvoginni sem sýndi 540 kíló. Sveitarstjórn Strandabyggðar hét á hópinn við ruslatínsluna og höfðu nemendurnir þrjátíu þúsund krónur fyrir dugnaðinn. Markmiðið með umhverfisdeginum er að efla umhverfisvitund nemenda, hvetja til bættrar umgengni og vekja athygli almennings á umhverfismennt.

Umhverfisdagurinn var nú í fjórða skipti haldinn hátíðlegur í Grunnskólanum á Hólmavík. Hann er liður í Grænfánastarfi skólans, en Grænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Grunnskólinn á Hólmavík hefur nú flaggað honum í þrjú ár.

Dagurinn hófst með fræðslu frá Einari Indriðasyni framkvæmdastjóra Sorpsamlags Strandasýslu og að ruslatínslu lokinni fengu allir heitt kakó í skólanum og áttu saman góða stund. Það var Ingibjörg Emilsdóttir verkefnisstjóri sem skipulagði umhverfisdaginn, ásamt umhverfisnefnd skólans.

Nemendur og starfsfólk Grunnskólans á Hólmavík fá kærar þakkir fyrir frábært framlag við fegrun kauptúnsins og íbúar allir á Ströndum eru hvattir til að taka þá til fyrirmyndar um helgina og hreinsa til í heiminum með því að fylla svo sem einn svartan ruslapoka.

bottom

frettamyndir/2012/645-hreinsun3.jpg

Hólmavík hreinsuð! – ljósm. Jón Jónsson