22/12/2024

Grímsey – perla Steingrímsfjarðar

Eyjan Grímsey sem liggur skammt frá landi á Drangsnesi er oft kölluð perla Steingrímsfjarðar. Þar er mikilfenglegt fuglalíf og gríðarstór lundabyggð, en eyjan er nú aðgengileg og vinsæll áfangastaður ferðamanna. Það er boðið upp á ferðir í Grímsey með leiðsögn á bátnum Sundhana sem Ásbjörn Magnússon á Drangsnesi stjórnar. Nú líður að því að lundinn hverfi frá landi þetta árið, þannig að áhugasamir fuglaskoðendur og myndasmiðir ættu að drífa sig út í eyju á næstu tveimur vikum eða svo. Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is hefur farið tvisvar út í Grímsey í sumar og náð nokkrum býsna skemmtilegum myndum.

Þjóðsagan segir að eyjan hafi orðið til þegar þrjú tröll ætluðu sér að grafa Vestfjarðarkjálkann frá meginlandinu og stofna þar tröllaríki. Í Grímsey var fyrrum býli og fram á 20. öld höfðu menn vetursetu á eyjunni og verbúðir. Á fyrri hluta 20. aldar voru refir aldir í eyjunni og síðan veiddir þegar mest fékkst fyrir skinnin. Í eyjunni var reistur viti 1915 og síðan endurbyggður 1949, eftir að sprenguflugvél hafði eyðilagt hann með skotárás í síðari heimsstyrjöld. 

Það er aðeins um 10 mínútna sigling út í Grímsey frá Drangsnesi og ekki þarf heldur að fara langt frá landi til að draga þorsk á sjóstöng, en Ásbjörn gjörþekkir þá staði sem líklegast er að sá guli gefi sig. Brottför er að öllu jöfnu frá bryggju á Drangsnesi, en ekki frá Kokkálsvík sem er leguhöfn Drangsnesinga um 2,5 km fyrir innan þorpið. Áhugasamir ættu að hafa samband við Ásbjörn Magnússon í síma 451-3238 eða 852-2538. Netfangið er sundhani@simnet.is

Áætlunarferðir 2007 (vinsamlegast pantið fyrirfram)
Brottför:
Fimmtudaga og sunnudaga (15/6 – 10/8 2007). Aukaferðir eftir óskum hópa í hvalaskoðun, á sjóstöng, Grímseyjarferðir eða siglingar.
Tími: 14:00
Lengd ferðar: 3-4 klst
Innifalið: Bátsferð og leiðsögn um eyjuna.
Verð: 3.900 (2007)

1

Grímsey

ferdathjonusta/580-grimseyin6.jpg

ferdathjonusta/580-grimseyin4.jpg

ferdathjonusta/580-grimseyin3.jpg

ferdathjonusta/580-grimseyin2.jpg

ferdathjonusta/580-sundhani1.jpg

ferdathjonusta/580-lundi9.jpg

ferdathjonusta/580-lundi8.jpg

ferdathjonusta/580-lundi7.jpg

ferdathjonusta/580-lundi6.jpg

ferdathjonusta/580-lundi4.jpg

ferdathjonusta/580-lundi3.jpg

ferdathjonusta/580-lundi2.jpg

ferdathjonusta/580-sundhani4.jpg

ferdathjonusta/580-sundhani2.jpg

ferdathjonusta/580-sundhani3.jpg

Í Grímsey og um borð í Sundhana – Ljósmyndir Jón  Jónsson og Pétur Jónsson