26/12/2024

Gott gengi á Andrésar Andarleikunum

Í gær hófust Andrésar Andarleikarnir á Akureyri. Þar eru um 700 hressir krakkar að keppa á skíðum og að sjálfsögðu eiga Strandamenn fjölmarga fulltrúa á svæðinu; fjórtán keppendur koma frá Hólmavík og nágrenni og tveir frá Drangsnesi, en auk þess er fjöldi aðstandenda með keppendum. Óhætt er að segja að keppendur frá Ströndum hafi staðið sig frábærlega, en þegar þetta er skrifað hafa fjórir þeirra lokið keppni og allir komist á verðlaunapall. Dagrún Kristinsdóttir varð í 2. sæti og Gunnhildur Rósmundsdóttir í 3. sæti í hefðbundinni 2,5 km göngu 11-12 ára stúlkna og þá urðu þau Jamison Ólafur Johnson og Kolbrún Ýr Karlsdóttir hvort um sig í þriðja sæti í sínum aldursflokki  í 1 km göngu.

Kristín S. Einarsdóttir á Hólmavík, sem er stödd á leikunum, segir að veður sé gott og sólin skíni á keppendur. strandir.saudfjarsetur.is senda hamingjuóskir til þeirra keppenda sem þegar hafa náð góðum árangri og baráttukveðjur til hinna sem eiga eftir að keppa. Þeir eru einnig minntir á að stærsti sigurinn felst í því að vera með.