23/12/2024

Gott fiskerí þegar gefur

„Það er fiskur um allan flóa," sagði Sigurður Friðriksson skipstjóri á Guðmundi Jónssyni ST-17 í dag, þegar hann varð á vegi tíðindamanns strandir.saudfjarsetur.is. Bátar á Hólmavík hafa verið að afla vel að sögn Sigurðar, en hann kom með 37 tonn að landi í janúarmánuði. „Tíðarfarið hefur verið frekar óhagstætt en ég komst þó sjö sinnum í róður í janúar," bætti Sigurður við.

Sigurður segir að bátarnir geri allir út á línu um þessar mundir og að þeir hafi verið að fá svona 300 kg á bala undanfarið. Hann segir að það sé nánast sama hvar sé rekið niður öngli í flóanum, það bíti allsstaðar á. Sjómenn séu þó að reyna að varast að fá mikið af ýsu því frekar slakt verð hefur verið á henni undanfarið.

„Við vitum nokkuð vel hvar tegundirnar halda sig, svo það er ekki svo flókið mál að velja hvaða tegund bítur á hverju sinni", sagði Sigurður ennfremur. Hann segir að ekki þurfi alltaf að fara langt í róðra og að hann hafi fyrir skemmstu róið rétt út á Steingrímsfjörðinn og komið skömmu síðar með 3,5 tonn í land.

Því er beint til útgerðarmanna að strandir.saudfjarsetur.is þætti mikill fengur í að fá fregnir af aflatölum hingað inn á vefinn.