22/12/2024

Gamlársmót í fótbolta framundan

Árlegt Gamlársmót í innanhúsbolta er framundan á Hólmavík og verður að þessu sinni haldið laugardaginn 29. desember og hefst kl. 14:00. Í spjalli við Flosa Helgason kom fram að það yrði nóg af bakkelsi fyrir alla þá sem langaði að kíkja á mótið og að venju verður afhentur verðlaunabikar fyrir sigurliðið og peningar fyrir 1.-3. sæti. Lið geta skráð sig hér á spjallsíðunni á strandir.saudfjarsetur.is, en einnig geta menn mætt á mótið þótt þeir séu ekki í liði og þá verða búin til lið á staðnum. "Þátttökugjaldið er 500 kall á manninn," sagði Flosi hress að vanda og bað fyrir bestu jólakveðjur frá sér og fjölskyldunni til allra Strandamanna.