22/12/2024

Gagnlegur fundur með Strandamönnum

Sigurjón Þórðarson, alþingismaðurAðsend grein: Sigurjón Þórðarson
Þann 10. mars sl. fengum við þingmenn Norðvesturkjördæmisins á fund til okkar góða gesti, en það voru Strandamennirnir Sigurður Jónsson Stóra-Fjarðarhorni, Ragnar Pálmason Bæjarhreppi, Guðbrandur Sverrisson Bassastöðum og Jenný Jensdóttir Drangsnesi.

Efni fundarins var samgöngur í Strandasýslu og var farið vítt og breitt um málaflokkinn, allt frá vegamálum, tölvutengingum og GSM-sambandi til flugsamgangna. Meginþungi umræðanna fór í að ræða vegamál enda ætti öllum sem aka um sýsluna að vera ljóst að mikil þörf er á að bæta vegina. Ég hef stundum fengið það á tilfinninguna þegar ég hef tekið beygjuna hjá Brú og inn í Húnaþing vestra að ég sé að fara inn í annað land, svo gríðarlegur er munurinn á vegunum.

Á fundinum var lögð mikil áhersla á að haldið yrði áfram að bæta veginn frá Brú til Hólmavíkur þó svo að ráðist verði í veg um Arnkötludal sem allar líkur eru á að verði að veruleika. Ég get tekið heilshugar undir þetta sjónarmið þar sem einbreiða malbikið í Bæjarhreppi og Bitrufirði er slysagildra og auknir þungflutningar munu án efa ganga nærri lélegum vegi. Sömuleiðis ætti það að vera sjálfsagt og eðlilegt forgangsverkefni að bæta vegi frá Hólmavík og norður Strandir. Það sér hver maður að það gengur ekki upp ef sett verður 7 tonna öxulþungatakmörkun á brúna yfir Bjarnarfjarðará.

Við í Frjálslynda flokknum höfum trú á bjarta framtíð landsbyggðarinnar með breyttri fiskveiðistjórn og aukinni ferðamennsku og leggjum því mikla áherslu á að fara í varanlegar samgöngubætur sem fyrst.

Til þess að þær verði að veruleika þarf að velta kvótaflokkunum Framsóknar- og Sjálfstæðisflokki úr sessi.

Sigurjón Þórðarson alþingismaður
www.sigurjon.is