22/12/2024

Fyrirspurn um vegaframkvæmdir á Ströndum svarað á þingi

veidileysa

Í dag var lagt fram á Alþingi svar innanríkisráðherra við fyrirspurn Elsu Láru Arnardóttur um vegaframkvæmdir á Strandavegi milli Árneshrepps og Steingrímsfjarðar. Í svarinu kemur fram að í drögum að þingsályktunartillögu um samgönguáætlun 2013-2016 sem samþykkt hefur verið í ríkisstjórn til framlagningar á Alþingi sé áfram gert ráð fyrir vinnu við vegagerð um Bjarnarfjarðarháls á árunum 2015-2016. Nýr vegur yrði 7,5 km langur og eiga framkvæmdir að geta hafist sumarið 2015. Reiknað er með sömu fjárveitingu og í fyrri drögum að samgönguáætlun sem lögð var fram á síðasta þingi árið 2015 eða 200 millj. kr., en hún er hækkuð árið 2016 úr 300 millj. kr. í 420 millj. kr.

Í þingsályktun um 12 ára samgönguáætlun fyrir árin 2011–2022 er gert ráð fyrir fjármagni til vegagerðar um Veiðileysuháls í beinu framhaldi af framkvæmdum yfir Bjarnarfjarðarháls. Í svarinu kemur fram að Vegagerðin hefur skoðað nokkra valkosti fyrir nýja veglínu yfir hálsinn og að auki kannað möguleika á að fara fyrir Kamb í stað þess að fara yfir Veiðileysuháls. Í nýsamþykktu aðalskipulagi Árneshrepps 2005–2025 ákvað sveitarstjórn að setja inn líklegustu veglínuna yfir Veiðileysuháls, en þó er þar einnig gert ráð fyrir leiðinni fyrir Kamb sem möguleika til framtíðar.

Þá kemur fram í svarinu að undanfarin ár hefur Vegagerðin unnið að gerð frumdraga fyrir mögulegar lausnir á vegagerð frá Kaldbakshorni og norður fyrir Gjögur. Nokkrir kaflar eru dýrir úrlausnar, einkum kaflarnir um Kaldbakshorn, milli Veiðileysu og Djúpavíkur og um Kjörvogshlíð. Frumdragaskýrsla liggur fyrir, en með fyrirvörum um tvo staði, Kaldbakshorn og Veiðileysukleif. Hún verður endurskoðuð þegar forsendna til þess hefur verið aflað, en fyrst og fremst er um að ræða dýptarmælingar í sjó.

Þá segir í svarinu að Vegagerðin hafi haft töluvert samráð við sveitarstjórnir Kaldrananeshrepps og Árneshrepps um vegamál á svæðinu, bæði með óformlegum og formlegum hætti. Þrír fulltrúar Vegagerðarinnar hafi t.d. mætt á fund sveitarstjórnar Árneshrepps í vetrarlok 2013 til viðræðna um Strandaveg.

Meðfylgjandi mynd er af Veiðileysufirði og fjallinu Kambi.