22/12/2024

Fundur á Hólmavík um sóknaráætlun Vestfjarða


Fyrirhugaður er fundur á Hólmavík þann 7. nóvember þar sem sveitarstjórnarmenn, atvinnurekendur og aðrir hagsmunaaðilar á Ströndum og í Reykhólahreppi eru kallaðir saman til að vinna að sóknaráætlun fyrir svæðið. Sú sóknaráætlun verður síðan notuð til að gera eina heildstæða sóknaráætlun fyrir Vestfirði sem verður unnin og fylgt eftir af svokölluðum samráðsvettvangi Fjórðungssambands Vestfirðinga. Þarna gefst íbúum á Ströndum tækifæri til að koma beint að þessari þróunarvinnu, en sóknaráætlun landshluta verður höfð til hliðsjónar við margvíslega stefnumótun á vegum stjórnvalda og við fjárveitingar. 

Þeir sem ætla að taka þátt í fundinum á Hólmavík eru beðnir að staðfesta þátttöku á netfangið magnus@atvest.is fyrir þriðjudaginn 6. október nk. Fundurinn er haldinn í Hnyðju miðvikudaginn 7. nóvember nk. kl. 10.00-15.00.

Ætlunin er að sóknaráætlun sjálf fyrir Vestfirði verði tilbúin 15. desember 2012. 

Samkvæmt tilkynningu frá Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða er það verklag sem ákveðið hefur verið að nota í vinnu Atvinnuþróunarfélagsins að sóknaráætlun þriggja svæða á Vestfjörðum að vinna vandamála- og lausnatré fyrir hvert svæði með tilliti til þeirra þriggja málaflokka sem sóknaráætlun landshlutans tekur til að þessu sinni, sem eru:

·        Atvinnumál og nýsköpun.

·        Mennta- og menningarmál.

·        Markaðsmál.

Greiningarvinna

1.      Vandamálagreining, hver eru helstu vandamál svæðisins m.t.t. málaflokkanna. Hugarflug.

a.      Kjarnavandamál, greina þarf hvert af þessum vandamálum er kjarnavandamálið en ekki orsök eða afleiðing.

b.      Vandamálatré, vandamálunum raðað upp með kjarnavandamálið í miðjuna en önnur vandamál raðast fyrir ofan eða neðan eftir því hvort þau eru orsök eða afleiðing.

2.      Lausnatré, vandamálatréð er tekið og vandamálunum breytt í lausnir, t.d. skortur á menntun, verður að auka menntun?

3.      Yfirmarkmið, hver er tilgangurinn (stóra myndin), tengja við helstu þætti Ísland 2020

4.      Undirmarkmið, markmið hvers málaflokks eða helstu verkefni.

5.      Aðgerðir, setja fram mælanleg verkefni sem tengjast málefnum sóknaráætlunar og eru bein svör við þeim vandamálum sem komu fram í vandamálagreiningunni.

6.      Árangur, hver verður árangur verkefnisins, tenging við fyrri greiningu.