22/12/2024

Fréttir af lögreglunni á Vestfjörðum

lögreglubíll, lögga, lögregla

Lögreglan á Vestfjörðum hefur opnað Facebook-síðu og setur þar inn ýmsar fréttir af því sem hún er að bardúsa. Þar kemur fram í tilkynningu 9. ágúst um verkefni síðustu viku að tveir ökumenn voru kærðir á Vestfjörðum, í liðinni viku, fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna. Annar á Skutulsfjarðarbraut á Ísafirði en hinn í Skötufirði. Eins voru tveir ökumenn stöðvaðir á bifreiðum með negldum hljólbörðum. Sekt við slíku broti nemur 5.000 kr fyrir hvern hjólbarða. Allmargar tilkynningar bárust í vikunni um að ekið hafi verið á búfé, aðallega borist úr Ísafjarðardjúpi, en einnig frá Dýrafirði og Arnarfirði.

Alls voru 60 ökumenn kærðir í liðinni viku fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða, flestir í akstri á Djúpvegi, en einnig í Strandasýslu, í Ísafjarðarbæ og í Vesturbyggð. Einn ökumaður var kærður fyrir að nota síma án handfrjáls búnaðar meðan á akstri stóð.

Þann 3. ágúst slasaðist ferðamaður er hann féll fram fyrir sig í fjörunni á Hvítanesi í Ísafjarðardjúpi. Hinn slasaði var fluttur með sjúkrabifreið á sjúkrahúsið á Ísafirði og þaðan með sjúkraflugi til Reykjavíkur vegna gruns um augnskaða. Að kveldi 3. ágúst barst hjálparbeiðni vegna konu sem hafði öklabrotnað er hún var að síga við Eiðshamra skammt frá Munaðarnesi á Ströndum. Björgunarsveitarmenn frá Strandasól komu hinni slösuðu um borð í sjúkrabifreið sem ók með hana að flugvellinum á Gjögri þar sem hún var flutt flugleiðis undir læknishendur.

Um miðnættið, aðfaranótt sunnudagsins 7. ágúst var skotið upp flugeldum í miðbæ Ísafjarðar. Slíkt er bannað, nema á tímabilinu frá 28. desember til 6. janúar, ár hvert.

Tilkynnt var um sex umferðaróhöpp í umdæminu í liðinni viku. Í tveimur tilvikum var um að ræða bílveltu, annars vegar í Gufudal og hins vegar við Drangsnesafleggjarann. Engin slys urðu á ökumönnum eða farþegum í þessum tilvikum, né heldur í hinum fjórum óhöppunum.

Þann 3. ágúst sl. barst lögreglunni tilkynning um að iPad mini hafi verið stolið úr búningsklefa tilheyrandi sundlauginni á Drangsnesi. Búi einhver yfir upplýsingum um þennan þjófnað er sá eða þeir hvattir til að hafa samband við lögregluna í síma 444 0400.